Nýjast á Local Suðurnes

Lords and Ladies hjóla til styrktar Blátt Áfram

Mótorhjólaklúbburinn Lords and Ladies í Grindavík eru að fara af stað með íslenskt ToyRun í sumar, nánar tiltekið dagana 17. og 18. júní næstkomandi. Ferðalagið fer eins og áður segir fram undir merkjum ToyRun sem er alþjóðlegt fyrirbæri þar sem bifhjólamenn hjóla frá einum stað til annars, hringinn í kringum landið, með það eina markmið að láta gott af sér leiða í þágu barna.

Hugmyndin er að sameina hjólaklúbba landsins í söfnun fyrir samtökin Blátt áfram. Vonir standa til að hver klúbbur safni í sínu héraði eða svæði, til að gera þetta sem veglegast.

Áheit í söfnuninni verður hægt að leggja beint inná Blátt áfram í gegnum tengil á vefsíðunni www.Toyrun.is

Útbúnar voru nælur merktar Toyrun 2016 sem verða seldar til styrktar verkefninu og er hægt að vera í sambandi við Lords and Ladies varðandi kaup á þeim.

Á meðan á hringferðinni stendur komum við til með að vera með skjal sem viðkomandi klúbbur skrifar undir og verður það svo afhent við lokamark á hringkeyrslunni. Segir í tilkynningu frá Lords and ladies.

Hringkeyrslan fer af stað frá Grindavík á hádegi 17.júni og áætlað að koma í mark um átta leitið að kvöldi þess 18. Öllum er velkomið að hjóla með, hvort sem er hluta af leiðinni eða allan hringinn en varðandi slíkt er hægt að hafa samband við klúbbinn vegna skipulags.