Framtíðarsýn starfshóps virt að vettugi
Ekki er gert ráð fyrir fjármagni árið 2017 til að hefja undirbúning að stækkun Hópsskóla eða leikskólans Króks samkvæmt fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar.
Málið var tekið fyrir á fundi fræðsluráðs Grindavíkurbæjar þann 5. desember síðastliðinn, en þar kom fram að ekki verður gert ráð fyrir stækkun skólans, heldur verða húsnæðismál leyst með lausum kennslustofum við Hópsskóla árið 2019.
Skólastjórnendur grunn- og leikskóla voru viðstaddir fundinn og lögðu fram bókun þar sem þeir lýsa vonbrigðum sínum með niðurstöðu fjárhagsáætlunar næstu árin, en samkvæmt henni virðist sem framtíðarsýn starfshóps varðandi skólamál í sveitarfélaginu hafi verið virt að vettugi.