Nýjast á Local Suðurnes

Ekki við Vegagerðina að sakast – Undir stjórnmálamönnum komið að gera breytingar

Umræðan um að úrbóta sé þörf á einum umferðaþyngsta vegi landsins, Reykjanesbraut, hefur farið á mikið flug í kjölfar banaslyss sem varð á gatnamótum Hafnavegar og Reykjanesbrautar þann 7. júlí síðastliðinn. Stofnaður var hópur á Facebook, Stopp-Hingað og ekki lengra!, með það að markmiði að þrýsta á stjórnvöld að hefja framkvæmdir við tvöföldum brautarinnar á þeim köflum sem eftir á að tvöfalda.

Hátt í 17.000 manns hafa skráð sig í hópinn á nokkrum dögum og fjöldi fólks segir þar skoðanir sínar á málinunu eða deilir reynslusögum. Þá hafa stofnendur Facebook-síðunnar, þeir Guðbergur Reynisson og Ísak Ernir Kristinsson, unnið að stofnun framkvæmdahóps, sem ætlað er að setja skýra stefnu um framhaldið og ákveða hver næstu formlegu skref verða. Hópurinn verður kynntur til leiks á næstu misserum.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar skrifaði pistil á síðuna, þar sem fram kemur að ekki sé alfarið við Vegagerðina að sakast í málum sem tengjast framkvæmdum á Reykjanesbraut.

Hef í gegnum árin átt ótal fundi með vegagerðinni vegna þess hlutar Reykjanesbrautar sem um er rætt. Ég get ekki tekið undir það að það sé talað fyrir daufum eyrum vegagerðarinnar þótt vissulega mætti gera meira og hraðar.

Verðum að átta okkur á því að umdæmi vegagerðarinnar á þessu svæði nær frá Garðskagavita og að rótum Vatnajökuls minnir mig og þið getir rétt ímyndað ykkur hve mörg gatnamót, vegstubbar, km yfirborðs eru á þessum kafla. Allstaðar er þrýstingum um að betur þurfi að gera. Segir meðal annars í pistli Guðlaugs, sem finna má í heild sinni hér.

Þá kemur fram í pistli Guðlaugs að þó sé gert ráð fyrir hringtorgum á tveimur hættulegum gatnamótum Reykjanesbrautar, við Þjóðbraut og Aðalgötu, auk þess sem gatnamótum við Hafnaveg verði breytt.

Búið er að gera ráð fyrir að Hafnavegurinn verði tekinn út eins og allir vita sem hafa kynnt sér tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjanesbæjar, og þá er einnig gert ráð fyrir hringtorgum á Aðalgötu og Þjóðbraut, þangað til tvöföldunin verður kláruð.

hringtorg

Hringtorg við Stekk – Hér má sjá hvernig tengingin við Hafnaveg er áætluð

Hringtorg við Þjóðbraut og Aðalgötu eru þó ekki á samgönguáætlun og fram kom í svari Svans G. Bjarnasonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar við fyrirspurnum Suðurnes.net að ekki séu fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á gatnamótunum sem um ræðir þar sem það sé ekki á samgönguáætlun.

Þá kom fram í svari Svans að það væri ekki í höndum Vegagerðarinnar að vinna verkefni utan samgönguáætlunar.

Samgönguáætlun er afgreidd á Alþingi og því undir stjórnmálamönnum komið að breyta henni ef svigrúm er til þess. Segir í svari Svans.

Þess má einnig geta að Umhverfis- og samgöngunefnd alþingis sendi frá sér nefndarálit við gerð samgönguáætlunar um að ráðast þyrfti í tvöföldun Reykjanesbrautar sem fyrst, það hlaut þó ekki náð fyrir eyrum þingmanna, sem samþykktu áætlunina, sem gildir til ársins 2018, án þess að í henni sé gert ráð fyrir framkvæmdum á Reykjanesbraut, utan þess að ein mislæg gatnamót verða sett upp við afleggjarann að Krýsuvík.