Nýjast á Local Suðurnes

“Ekki grýta lögreglumenn” – Sigvaldi sendir baráttukveðjur á vinnufélagana

Sigvaldi Arnar Lárusson lögreglumaður sendir báráttukveðjur á samstarfsmenn sína sem standa vaktina á Austurvelli í dag, en metfjöldi er mættur fyrir framan alþingishúsið til mótmæla. Sigvaldi sem er í vaktfríi stefndi á að mæta á Austurvöll til að taka þátt í mótmælunum en liggur veikur heima. Hann notaði þó Facebook til að senda kveðjur á samstarfsmenn sína og biðlar til fólks að fara að öllu með gát og ekki grýta eða slasa lögreglumenn sem sinna sínum störfum á staðnum.

“Ég er reiður og orðlaus yfir þessari framkomu í garð landsmanna og vona ég að sem flestir mæti á Austurvöll í dag og hafi hátt. Sjálfur ætlaði ég að mæta og mótmæla, enda í vaktarfríi, en bévítans flensan náði yfirhöndinni. Mig langar til að biðla til ykkar og benda á að margir samstarfsmenn mínir, lögreglumenn, verða í vinnunni í dag. Þeir hafa vissu hlutverki að gegna eins og að sjá til þess að þetta fari fram án þess að fólk slasist eða að eigur fólks séu skemmdar. Sjálfur stóð ég vaktina í Búsáhaldarbyltingunni og upplifði margt miður leiðinlegt þar. En við lögreglumenn erum í sömu sporum og aðrir, við erum með okkar lán eins og aðrir og okkur finnst ekkert af þessu sanngjarnt né rétt. En við erum fagmenn, við erum í vinnunni og vinnum vinnuna okkar vel. Þar sem ég ligg í flensunni þá langar mig til að biðja ykkur öll um að passa upp á vinnufélaga mína í dag og næstu daga. Ekki grýta þá eða slasa.
Baráttukveðja” Segir Sigvaldi Arnar á Facebook.