Nýjast á Local Suðurnes

Lagning jarðstrengs milli Fitja og Helguvíkur að hefjast

Mynd: Landsnet

Áætlað er að hefja lagningu Fitjalínu 2, 132 kílóvolta (kV) jarðstrengs frá Fitjum til Helguvíkur í næstu viku.

Framkvæmdir við slóðagerð, þveranir og skurðgröft hófust í maíbyrjun og í dag og í gær voru 18 risakefli með jarðstrengsefni, sem hvert vegur um 17 tonn, flutt með stórum trukkum frá Sundahöfn út á Reykjanes.

Það er ÍSTAK sem sér um lagningu jarðstrengsins fyrir Landsnet og er miðað við að framkvæmdum verði lokið í septembermánuði næstkomandi. Strengurinn er um 8,5 km langur og liggur að mestu meðfram Reykjanesbraut, fyrst sunnan vegar og að hluta til innan flugvallarsvæðisins en síðan norðan vegarins sem leið liggur út í Helguvík.
Skurðgreftri og vinnu við þverun Flugvallarvegar, næst Fitjum, er lokið og nú er unnið að þverun Grænásvegar. Í næstu viku er áætlað að hefjast handa við þverun Reykjanesbrautar við Rósaselstorg þar sem beygt er norður til Helguvíkur.

IAV landsnet helguvik

Í Helguvík er nýtt tengivirki Landsnets, Stakkur, í byggingu á vegum Íslenskra aðalverktaka. Verkinu miðar vel en byggingaframkvæmdir hófust í apríl og á þeim að ljúka fyrir áramót.

Undirbúningur að byggingu tengivirkisins í Helguvík og lagningu jarðstrengsins hófst hjá Landsneti haustið 2014, í framhaldi af samningi um flutning raforku til kísilvers United Silicon. Á tengingin að vera tilbúin 1. febrúar 2016.