Nýjast á Local Suðurnes

Skilja ákvörðun Síldarvinnslunnar um að hætta starfsemi

Stjórn Reykjaneshafnar hefur fullan skilning á ástæðum þess að Síldarvinnslan hf. muni hætta starfsemi í Helguvík á vormánuðum, en ákvörðun um það var tekin af stjórn fyrirtækisins á dögunum. Rekstrarforsendur verksmiðjunnar hafa verið veikar undanfarin ár og hafa eignir fyrirtækisins á Suðurnesjum verið settar á sölu.

Stjórn hafnarinnar fór yfir málin á fundi sínum í vikunni og þakkaði fyrirtækinu samstarfið í eftirfarandi bókun:

„Stjórn Reykjaneshafnar skilur ákvörðun Síldarvinnslunnar hf. um að hætta starfsemi fiskimjölsverksmiðunnar í Helguvík enda hafa rekstrarforsendur verksmiðjunnar verið mjög veikar undanfarin ár. Fiskimjölsverksmiðjan hefur verið rekin í Helguvík í rúm 20 ár í góðu samstarfi milli aðila og er eftirsjá í þeim viðskiptum. Er það von stjórnarinnar að sú aðstaða sem losnar í Helguvík við þessa ákvörðun skapi þar með tækifæri fyrir aðila sem vilja hefja rekstur sem tengist hafnaraðstöðu.“