Nýjast á Local Suðurnes

Heildarkostnaður við endurbætur á Hótel Keflavík kominn yfir 300 milljónir

-„Dugnaður foreldra minna og hæg uppbygging grunnurinn,“ segir Steinþór Jónsson

Iðnaðarmenn eru nú að leggja lokahönd á frágang við fyrsta 5 stjörnu hótel landsins, Diamond Suites sem er efsta hæðin á Hótel Keflavík en það hefur tekið Steinþór Jónsson hótelstjóra og fjölskyldu hans um fjögur ár að endurbyggja ytra birgði, uppfæra 77 hótelherbergi og byggja lúxuhæðina á efstu hæð Hótelsins.

diamond suite1

Nýju herbergin á efstu hæð hótelsins eru glæsileg

Heildarkostnaður við endurbætur og uppbyggingu Diamond Suites er nú þegar komin yfir 300 milljónir króna að sögn Steinþórs sem hefur varið um 40-50 milljónum króna árlega síðastliðin fjögur ár í þessum áfanga, í breytingar á húsnæði Hótel Keflavík en lokahnykkurinn, sem tekinn var á þessu ári kostar vel á annað hundruð milljónir.

„Grunnurinn að þessu má segja að sé dugnaður fjölskyldunar og sérstaklega foreldra minna ásamt því að við höfum farið hægt í uppbygginguna,“sagði Steinþór í spjalli við Local Suðurnes.

„Við höfum byggt hótelið upp á 30 árum og við höfum aldrei tekið stór langtímalán fyrir þessum breytingum en notið góðrar aðstoðar hverju sinni frá viðskiptabönkum okkar.“ sagði Steinþór.

hotelkef1

Hótel Keflavík í kringum 1995 þegar ráðist var í fyrstu stækkun hótlesins – Mynd: Úr einkasafni

Hin nýju rými Diamond Suites hafa nú verið tekin í gagnið en að sögn Steinþórs verður veturinn notaður til að koma lúxus svítunum og þjónustunni í kringum þær í 5 stjörnur, sér móttaka verður fyrir lúxushæðina auk þess sem sérþjálfað þjónustufólk verður starfandi í kringum Diamond Suites.

Hugmyndin um hótel á Suðurnesjum talin vera klikkuð í upphafi

Hótel Keflavík fagnar 30 ára afmæli í maí á næsta ári en það var stofnað árið 1986 af foreldrum Steinþórs sem og hans fjölskyldu og hefur fyrirtækið verið rekið af þeim og á sömu kennitölunni öll þessi 30 ár. Uppbyggingin á Hótel Keflavík hófst því töluvert áður en svæðið varð eins ferðamannavænt og það er í dag, til að mynda var Bláa lónið ekki komið til sögunnar né Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Auglýsing: Það þarf ekkert að vera dýrt að koma vörum eða þjónustu á framfæri!

Steinþór komið að mörgum uppbyggingarmálum á svæðinu þegar kemur að ferðamannageiranum, en auk þess að taka þátt í stofnun Hótel Keflavík var hann meðal annars upphafsmaður og hugmyndasmiður að Ljósanótt og kom að uppbyggingu Víkingaheima á sínum tíma, þannig að í raun má segja að  málefni tengd ferðaiðnaðinum hafi verið honum afar hugleikin frá barnsaldri.

hotel kef - jon og barnabörnin

Það hafa mörg handtökin farið í hinar ýmsu breytingar á hótelinu í gegnum tíðina og hefur öll fjölskyldan lagt hönd á plóg. Hér er Jón William ásamt barnabörnunum Lilju Karen og Katrínu Helgu ásamt vinkonu.

„Við vorum í raun langt á undan okkar samtíð í þessum málum og vorum talin vera svolítið klikkuð að veðja á hótelrekstur á svæðinu í upphafi,“ sagði Steinþór.

Hann bætti við, „mesta stökkið tókum við árið 1995 þegar við keyptum húsið við hliðina og stækkuðum hótelið um meira en helming, með tilkomu Canada 3000 sem var mjög jákvætt fyrir svæðið á sínum tíma og við höfum byggt þetta upp hægt og rólega síðan.“

„Ef við tökum Diamond Suites sem dæmi þá verðum við að geta boðið upp á alla möguleika, dekkað alla flóruna – við rekum til dæmis líka enn gistiheimilið á móti hótelinu – Það hefur mikið að segja fyrir svæðið að við skulum geta tekið á móti öllum og ég á von á að það aukist með tilkomu Diamond Suites, við fáum efnameiri ferðamenn hingað sem skilar sér vonandi í auknum viðskiptum á Suðurnesjum.” Sagði Steinþór.

diamond suites breytingar

Endurbætur sem gerðar hafa verið á Hótel Keflavík síðastliðin 4 ár hafa kostað um 300 milljónir króna – Mynd: Úr einkasafni

 Öll Viðskipti áhættusöm

Steinþór hefur verið áberandi í viðskiptalífnu undanfarin ár og gengið á ýmsu þegar fjárfestingar hafa ekki tekist sem skyldi, aðspurður um þátttökuna í fjárfestingum á árunum fyrir hrun sagði Steinþór:

“Öll viðskipti sem maður tekur þátt í eru áhættusöm og eðlilega margt sem ekki hefur gengið upp á löngum ferli en fjölskyldufyrirtækin okkar Ofnasmiðja Suðurnesja, sem við seldum árið 2005, og Hótel Keflavík hafa sem betur fer gengið vel frá stofnun. Fyrir það erum við mjög þakklát og lítum ekki á sem sjálfsagðan hlut.“ sagði Steinþór að lokum.