Nýjast á Local Suðurnes

Geislavirk spilliefni við Reykjanesvirkjun

Geislavirk spilliefni hafa fallið til í Reykjanesvirkjun frá 2006, án vitundar starfsmanna eða eftirlitsstofnana. Þetta er í fyrsta skipti sem slík efni falla til hér á landi.

Geislavarnir sendu frá sér tilkynningu um þetta klukkan rétt rúmlega fimm í dag, eftir að fréttastofa RÚV hafði haft samband við stofnunina vegna málsins.

„Það hefur komið í ljós að í útfellingum sem eru við borholutoppana, þar sem vatnið kemur upp úr jörðinni, þar verða útfellingar, og í þeim safnast upp náttúruleg, geislavirk efni,“ segir Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins

„Það kemur örlítið á óvart vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem þetta mælist hér á landi,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku. „Hins vegar er þetta vel þekkt erlendis – í námuvinnslu, olíuvinnslu og gasvinnslu, og jafnvel í mun meiri mæli en hér.“

Starfsfólk ekki í hættu

„Starfsmönnum HS Orku stafar ekki nein hætta af þessari geislun,“ segir Sigurður. „Hins vegar, ef geislavirk efni berast inn í líkamann, þá geta þau valdið geislun þar.“

Ásgeir segir að verklagi í virkjuninni hafi verið breytt eftir að málið kom upp, og starfsmenn fengið öflugri búnað til að meðhöndla efnin. Ekki sé ástæða til að ætla að skaði hafi orðið af meðhöndlun efnanna og urðun þeirra undanfarin ár. Þó sé ekki búið að ákveða hvernig efnunum verður fargað hér eftir.