Hafbjörg færði Barnaspítala Hringsins veglega gjöf
Unglingadeildin Hafbjörg í Grindavík færði Barnaspítala Hringsins 174.633 krónur sem söfnuðust á Landsmóti unglingadeilda sem haldið var í Grindavík í sumar. Peningnum var safnað í klósettpappírssölukeppni en á landsmótinu var öllum þátttakendum skipt í níu blandaða hópa sem allir kepptu meðal annars í því að selja klósettpappír, pokahlaupi og böruburði svo eitthvað sé nefnt.
Alls voru þátttakendur á mótinu tæplega 400 af öllu landinu en hver hópur fékk einungis 8 klósettpappírsrúllur og hálftíma til þess að selja og verður því ágóðinn að teljast ansi góður en á þeim tíma var verið að safna fyrir eitthvað gott málefni fyrir alla.
Þegar starfið fór af stað í haust ákváðu félagar unglingadeildarinnar Hafbjargar að gefa Barnaspítala Hringsins peningana og þannig koma peningunum aftur til samfélagsins. Bæjarbúum í Grindavík eru færðar sérstakar þakkir fyrir þolinmæði og jafnframt fyrir stuðninginn en þeir keyptu allan klósettpappírinn á uppsprengdu verði.