Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík gegn Fjölni í kvöld – HS Orka býður frítt á völlinn

Keflvíkingar taka á móti Fjölni í Pepsí-Deildinni í kvöld í leik þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina fyrir Keflavíkurliðið. HS Orka býður þeim sem mæta merktir Keflavík frítt á leikinn, boðið verður upp á súpu fyrir leik og hljómsveit mun spila nokkur lög. Leikurinn hefst klukkan 19:15 en dagskrá á vellinum hefst klukkan 18.

Keflavík og Fjölnir hafa leikið sjö leiki í efstu deild, bæði lið hafa unnið tvo leiki en þremur leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 11-10 fyrir Keflavík.

Liðin mættust fyrr í sumar í Pepsi-deildinni og þá á heimavelli Fjölnis, þar sem Fjölnismenn skoruðu markið sem tryggði þeim stigin þrjú sem í boði voru.

Fyrir leikinn er Keflavík í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig en Fjölnir er í 5. sætinu með 23 stig.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn má hlusta á hann í beinni útsendingu á Hljóðbylgjunni fm 101,2, í sjónvarpi Símans eða á hljodbylgjan.com