Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar eigna sér landsliðsmann – Reppaði grænt í stúkunni á nágrannaslag

Rígurinn á milli nágrananna Keflavíkur og Njarðvíkur í íþróttum er oft á tíðum mikill og samkeppnin hörð, en liðin leika þetta árið í sömu deildum bæði í körfunni og fótbotanum. Þessi rígur kom nokkuð vel í ljós þegar nágrannaslagurinn í körfuboltanum fór fram á mánudagskvöld.

Njarðvíkingar nýttu tækifærið og smelltu ljósmynd af knattspyrnulandsliðsmanninum Arnóri Ingva Traustasyni íklæddum Njarðvíkurtreyju á Fésbókarsíðu sína, en löngum hafa bæði lið haldið því fram að hæfileikar kappans á knattspyrnuvellinum hafi orðið til á þeirra æfingasvæði.

Ferill Arnórs Ingva í íþróttum skiptist á milli beggja liða, en Arnór Ingvi æfði knattspyrnu með yngri flokkum Njarðvíkur, lék svo með öðrum- og meistaraflokki Keflavíkur, hann æfði körfuknattleik með Njarðvík, en gekk alla sína skólagöngu í skóla í Keflavík. Arnór Ingvi lék 56 leiki með meistaraflokki Keflvíkur í knattspyrnunni og skoraði í þeim 10 mörk. Þá hafa bæði lið þénað nokkuð á ferli kappans, en tugir milljóna króna hafa komið í hlut beggja liða í formi uppeldisbóta þegar kappinn hefur haft félagaskipti.