Flugstöðin ræður ekki við tollskoðun og forvottun vegna Bandaríkjaflugs

Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri lággjaldaflugfélagsins WOW-air telur að ekki sé mögulegt að taka upp toll- og vegabréfaskoðun vegna flugs til Bandaríkjanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við núverandi aðstæður.
Þetta segir Skúli í viðtali sem birt er í í Morgunblaðinu í dag. Skúli telur þetta þó vera jákvæða þróun.
„Ég held að þetta geti verið mjög jákvætt og áhugavert. Hins vegar undirstrikar þetta hve aðkallandi það er að laga núverandi aðkomu og afgreiðslu í flugstöðinni. Eins og staðan er núna gæti flugvöllurinn engan veginn höndlað slíka starfsemi.“ Segir Skúli.
Eins og Suðurnes.net greindi frá á laugardag hafa bandarísk stjórnvöld hafið skoðun á því hvort mögulegt sé að taka upp bandaríska toll- og vegabréfaskoðun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verði slík heimild veitt mun allt eftirlit sem jafnan hefur farið fram við komu til Bandaríkjanna fara fram á Keflavíkurflugvelli.