Nýjast á Local Suðurnes

Karfan.is 10 ára – “Fjölmargir hafa lagt ómetanleg lóð á vogarskálarnar “

Einn vinsælasti íþróttavefur landsins, Karfan.is fagnar í dag 10 ára afmæli sínu. Það var þann 14. desember 2005 sem vefsíðan hóf göngu sína en hún er í dag á meðal 35 vinsælustu vefsíðna á landinu samkvæmt vefmælingu Modernus.

Að sögn Jóns Björns Ólafssonar stofnanda Karfan.is hafa fjölmargir einstaklingar hafa lagt ómetanleg lóð á vogarskálarnar, en eitt af því sem einkennir vefsíðuna er gríðarlegur fjöldi ljósmynda, sem hleypur á þúsundum:

“Ljósmyndirnar eru orðnar þónokkrar, og fyrir svona myndasóða eins og mig sem þarf langa atrennu við að ná góðri mynd þá myndi ég giska á að þær væru nokkur hundruð þúsund, eflaust milljónir.” Sagði Jón Björn í léttum dúr í samtali við Local Suðurnes.

 

Viðtal við Luc Longley og EuroBasket í Berlín eftirminnilegast 

Á Karfan.is hefur verið fjallað um nær allt sem tengist körfuknattleik á einhvern hátt en eftirminnilegast á þessum 10 árum segir Jón Björn vera þátttöku Íslenska landsliðsins á EuroBasket í Berlín.

“Persónulega var eitt það eftirminnilegasta að ná viðtali við Luc Longley fyrrum miðherja Chicago Bulls. Hann hafði frá mörgu skemmtilegu að segja karlinn.

En á heildina litið eftir þessi 10 ár var hápunktinum náð með þátttöku Íslands á EuroBasket í Berlín. Ekki óraði mann fyrir því að Ísland ætti eftir að ná inn á lokamót, svo margt hér áður fyrr var ljón í vegi okkar eins og t.d. gamla deildarfyrirkomulagið en baráttan sem Ólafur Rafnsson m.a. stóð fyrir olli því að Ísland átti rauhæfari möguleika en áður að komast inn á lokamót.” Sagði Jón Björn

“Það gekk eftir og að lenda svo í svona stórkostlegum riðli gegn Þjóðverjum, Ítölum, Spánverjum, Tyrkjum og Serbum var nánast lygilegt. Auðvitað var það alltaf líklegasta niðurstaðan að tapa öllum fimm leikjunum en að fara m.a. í framlengingu gegn Tyrkjum og vera í dauðafæri að leggja Ítala og Þjóðverja var virkilega ánægjulegt…Serbar og Spánverjar voru svo helst til of seigur biti á okkar disk.

Að vera þarna úti í Berlín, sjá samstöðuna í íslenska liðinu og íslenska stuðningsmannahópnum er svo æðislega jákvæð og öflug þróun á þessum áratug sem Karfan.is hefur verið að taka púlsinn að maður gat vart annað en komist smá við þarna ytra. Lokakvöldið þegar „Ég er kominn heim“ var spilað og stúkan tók undir, það er vitaskuld eitthvað sem er brennt í huga manns.” Sagði Jón Björn.

Fjöldi sjálfboðaliða kemur að vefnum

Mikill fjöldi sjálfboðaliða kemur að vefsíðunni og vill Jón Björn koma á framfæri kæru þakklæti á þessum tímamótum.

“Eins hefur það verið afar skemmtilegt að kynnast öllu því góða fólki sem lifir og hrærist innan körfuboltans og sérstaklega vil ég koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem hafa allan þennan tíma unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþróttarinnar. Karfan.is væri hvorki fugl né fiskur ef ekki væri fyrir öfluga sjálfboðaliða hringinn í kringum landið.” Sagði Jón Björn að lokum.