Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni á fimmtudegi: Stóra lopapeysumálið og forsetakosningar

Þessi fallegi miðvikudagur er í raun föstudagur enda síðasti vinnudagurinn í þessari viku. Því er kjörið að kasta fram föstudagspistlinum núna, svona rétt fyrir langa og góða helgi.

Árni Árna

Árni Árna

það var reisn yfir því þegar frú ráðherra ferðamála afhenti borgarstjóranum í Chicago forláta lopapeysu frá Kína. Íslenskum handverkskonum var ekki skemmt yfir þessu, enda hálf kjánalegt að afhenda íslenska vöru og hönnun sem kemur til landsins í gámavís beint frá Kína. En þetta er samt raunin, stór hluti íslenskrar hönnunar er framleidd í Kína, til að mynda 66°norður og því með öllu óskiljanlegt verðlagið á þessu dóti. Það sem fór mest fyrir brjóstið á mér var útgangurinn á lopapeysunni. Hálsmálið var teygt og togað og hefði ég ekki vitað betur mátti halda að frú ráðherra hafi rifið út úr geymslunni gamla þjóðhátíðar-lopapeysu frá sokkabandsárunum. En annað sem var í fréttum í vikunni og tengist frú ráðherra er mikilvægi þess að halda vel utan um ferðaþjónustuna. Þessi atvinnugrein á stóran þátt í góðri stöðu landsins og gamli íslenski hugsunarhátturinn „þetta reddast“ gengur ekki lengur hvað þetta varðar. Frú ráðherra bendir alltaf á ferðamiðstöðina sína sem hún stofnaði. Þar á að leysa öll málefni ferðaþjónustunnar, öryggismál ferðamanna, gjaldtökuhugmyndir og fleira. EN ég spyr hvernig í óskupunum á einn starfsmaður þar á bæ, að sjá til þess að stærsta atvinnugrein landsins nauðlendi ekki með skelli og hér fari allt á annan endan? Frú ráðherra verður að leggja frá sér cokteil-glösin og taka hendur úr vösum og fara að gera eitthvað. Kjörtímabilið fer að taka enda og það hefur bara ekkert gerst í ráðuneytinu á meðan hún situr þar.

Nú er ég glaður, það er nefnilega soldið djúpt á magavöðvunum hjá mér og núna er komin lausn á því. Nú er fólk bara farið að teikna á sig six pack. Þá er bara að fjárfesta í góðum tússpenna og glenna sig beran að ofan á Austurvelli um leið og hitastigið fer yfir tíu gráðurnar.

Spennan magnast í kapphlaupinu um Bessastaði. Nú þegar hafa allavega 12 gefið kost á sér og margir liggja undir feldi og láta sig dreyma. Það er nokkuð ljóst að aldrei hafa eins margir verið í framboði. Sú staðreynd segir okkur að næsti forseti lýðveldisins þarf í raun bara 15-20% fylgi til að sigra. Þá er ég að kasta þessu fram miðað við að allir þessir frambjóðendur nái að krunka inn einhver atkvæði og mikil dreifing verði á atkvæðum. Ég sé ekki í hendi mér ennþá hvaða 2-3 frambjóðendur muni standa upp úr og í raun takast á um embættið. Það liggur fyrir að það eru fjölmargir þarna sem eiga ekkert erindi við þjóðina og verða með 1-4% fylgi. Það væri auðvitað frábært ef þessir einstaklingar endurskoðuðu afstöðu sína svona mánuði fyrir kosningar og taka alvarlega gengi sitt í könnunum.

Talandi um fylgi þá eru ýmsar leiðir sem stjórnmálamenn grípa til í von um að rífa upp fylgið. Nokkrir þingmenn frá Bjartri framtíð, Samfylkingu og VG vilja nú að íslenska ríkið færi nýburum vöggugjöf. Er þetta enn ein hugmyndin í að aumingjavæða samfélagið? Hvað næst? Að foreldrar fari í röð fyrir utan velferðarráðuneytið um hver mánaðarmót og nái í bleyjuskammtinn fyrir mánuðinn. Íslenska ríkið greiðir barnabætur, tannlæknakostnað, sveitarfélög niðurgreiða dagmömmur og leikskóla og grunnskólanámið er frítt. Væri ekki frekar nær að fara fram á greiðslumat áður en fólk fjölgi sér ? Því miður er margir að dúndra niður börnum en búa ekki við fjárhagslegt öryggi til að veita þessum gullmolum mannsæmandi lífskjör og þá er bara öskrað og ríkið á að grípa inn í. Ég styð frekar að getnaðarvarnir verði fríar og fræðsla stóraukin í von um að óheppni í svefnherbergjum fækki.

Ég var soldið glaður þegar úrslitin lágu fyrir í Ísland got talent sl. sunnudag. Ég er nefnilega orðinn svo gamall að mig líkar lítt hvernig söngur er vinsæll í dag. Þetta er í rauninni þannig að sungið er úr brjóstkassanum en ekki úr þyndinni. Tónar kreistir og kramdir, líkt og þeir séu í rússibanaferð þar sem þeir kastast til og frá á teinunum. Eru á mörkunum að vera falskir og flökti út um allt. Svo kom fram stúlka sem söng „dimmar rósir“ af gömlum íslenskum sið með tærum tónum alveg eins og á að gera þetta og komst áfram. Það gladdi mig að ég er ekki sá eini sem fýlar betur alvöru söng en ekki þetta jarm sem baular í útvarpinu alla daga.

Hótel Adam við Skólavörðustíg komst aftur í fréttirnar – ástandið þar er einna helst farið að minna mann á eldhúsið í Gervahverfinu. Átöppun á flöskur og tapparnir geymdir við salernisskálar á starfsmannasalerninu. Já þægilegt að kasta af sér og fylla svo á nokkrar flöskur í leiðinni. Ótrúlegt að þessari búllu sé ekki lokað.

Það var nú oft gert grín af því að maður vissi ekkert hvað maður væri að japla á þegar farið var á asískan veitingarstað. Í sumum löndum í Asíu eru hundar og ýmis skordýr lögð sér til munns og því væri von á ýmsu á diskinn sinn ef farið væri á slíka staði. Nú kemur það í ljós að sama má segja um íslenska veitingarstaði. Könnun Matís sýndi í 30% tilfella að sá fiskur sem pantaður var af matseðli var allt önnur tegund. Langa seld sem skötuselur og framvegis. Kapphlaupið um að rífa sem mest úr veskjum ferðamanna nær nýjum hæðum og má með sanni segja að við séum orðin fégráðug og gæði og góð þjónusta fari halloka í gullæðinu.

Gleðilega páska