Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni spáir í krúttlegum bossa á forsíðu Fréttablaðs

Föstudagspistillinn að þessu sinni, tekur á pólitíkinni, forsetaframboði, rassinum hennar Grétu og góðri þjónustu 112.

Ótrúleg þessi fjársvik með starfsmann skattstjóra innanborðs. Mætt var á veitingarstað með 17 milljónir bara í poka eins og ekkert sé. Það er ótrúlegt hvað maður er dofinn á hlutina, það gæti bara verið einhver á næsta borði að lepja súpu dagsins með milljónir í Bónuspoka. Viðtakandinn tók milljónirnar og hélt heim á leið, spurning hvort hann splæsti í take away fyrir fjölskylduna í leiðinni. Svo var upphæðinni eytt í einkaneyslu. Ég var gapandi hissa þegar ég las þetta en hugsaði svo með mér, ég væri nú ekki lengi að eyða 17 milljónur í einkaneyslu. Nýji Volvo jeppinn, fitufrysting, andlitslyfting og föt fyrir afganginn, væri búinn með þetta á einum mánuði. Ég sé að það er mikil þörf á að fá sönn íslensk sakamál aftur á skjáinn, af nægu er að taka.

Árni Árna

Árni Árna

Munið þegar 1.maí hafði djúpstæða merkingu hjá þjóðinni? Munið þegar fjölskyldan klæddi sig upp og tók þátt í baráttunni um bætt lífskjör? Ég fór að hugsa þetta á sunnudaginn, svona var þetta á mínum uppvaxtarárum og foreldrar mínir halda þennan dag hátíðlegan. EN núna er Kringlan og Smáralind full af fólki sem spáir ekki í þessu. Hvað veldur, jú tímarnir breytast og mennirnir með. Ég er á því að verkalýðsfélög hafa breyst frá því að þar leiddu hugsjónarmenn sem börðust af hörku fyrir félagsmenn sína, kauplaust fullir af kjarki og eldmóði. Núna eru verkalýðsforingjar á hærri launum en ráðherrar og tala nú ekki um að Gylfi Arnbjörns hjá ASÍ birtist í skjölum aflandsfélaga. Öllum er sama um það, umræðan stóð í 3 mínútur. Verkalýðsforingjarnir birtast harðir í viðtölum og það á ekkert að gefa eftir en raunin verður ávallt sú að löngunin í vöfflukaffið er meiri en lífskjör félagsmanna. Það eru mikil vonbrigði að sjá hvernig verkalýðshreyfingin hefur fjarað út – fjarað út með foringjum sem standa með atvinnurekendum en ekki starfsfólkinu.

Talandi um hugsjón, þá liggur það fyrir að eini maðurinn sem gæti mögulega fellt Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands er Guðni. En það er bara möguleiki ef þeir eru tveir í framboði. Þá er spurning hvort hugsjónin felist í því að þurfa að verða forseti eða breytingar á Bessastöðum og láti þá tvo um baráttuna – að fram fari einvígi. Annars langar mig að vita hvað fer í gegnum kollinn á frambjóðenda sem mælist með 0,7% fylgi í könnunum „já þetta er allt að koma hjá mér.“

Það er eflaust mörgum í fersku minni þegar neyðarlínan sendi ekki konu í neyð um miðja nótt sjúkrabíl þar sem hún datt í hálku og lá í götunni. Nágranni konunnar fann hana vart með lífsmarki en starfsmaður neyðarlínunnar taldi hana bara fulla og ruglaða. Nú heldur neyðarlínan áfram að toppa sig, strætóbílstjóri hringdi eftir hjálp með veikan einstakling í vagninum hjá sér. Getur þú ekki skutlað honum á sjúkrahús – var svar neyðarlínunnar. Mig langar að vita hvort um sama starfsmann sé að ræða? Þarf ekki aðeins að setjast niður með starfsfólkinu og fara yfir hlutverk neyðarlínunnar? Átti strætóbílstjórinn bara að dúlla sér á strætó – „bið alla að halda ró sinni, við þurfum að fara aðeins útaf leið og koma við á neyðavaktinni.“ Það er eins gott að hringja ekki úr flugvél og tilkynna veikan einstakling um borð, svarið yrði örugglega geturu ekki hent viðkomandi bara út yfir Fossvoginum?

Skuldastaða borgarinnar hefur verið mikið til umræðu síðustu daga, enda hallinn slíkur að skíðamenn dauðöfunda þessu körpu línu upp á við. Þetta byrjaði allt saman þegar reykvíkingar féllu fyrir „allskonar fyrir aumingja“ – núna er grínið búið og ekkert í boði fyrir okkur aumingjana sem búum í þessari borg, nema einn og einn nýr hjólreiðastígur. Oddný Harðadóttir vinkona mín og formannsframbjóðandi Samfylkingarinnar gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir grýtan veg til menntunar. Oddný hefur mikla reynslu og menntun hvað varðar skólamál á öllum stigum það væri gaman að heyra hvað henni finnst um stöðuna í borginni. Þar leiðir hennar flokkur og blasir við þrot sem strax kemur niður á börnum í skólum borgarinnar. Flippið hjá borgarbúum að kjósa grínistann og sæta strákinn hefur í för með sér harða refsingu sem blasir við þeim – grínið er búið.

Ég er farinn að vorkenna Hrafni Gunnlaugssyni. Ég man þegar það var verið að æsa sig yfir listsköpun hans á lóð sinni við heimili sitt á Laugarnesinu og núna er ráðist á sumarbústaðinn hans. Allt í einu er sumarbústaður ógn á vatnsverndarsvæði. Það er samt eitt jákvætt við þetta, Hrafn fær engan frið til að skrifa handrit að einhverri landnáms-víkingakvikmynd. Ég hef sagt það áður og segi það aftur að kvikmyndirnar hans eru nú hálfgert hryðjuverk fyrir sálina.

Nú liggur fyrir rannsókn þess eðlis að fjórðungur Labradorhunda séu með gen sem hefur áhrif á át þeirra og þess valdandi að þeir eru of feitir. Rannsakendur vonast til að rannsóknin geti hjálpað í baráttunni við offitu mannfólksins. Þá kemur fram að í ríkari löndum heimsins er komið upp offituvandamál meðal hunda. Ég mun að sjálfsögðu nýta mér þetta og sá næsti sem segir við mér að ég hafi bætt á mig mun ég svara um hæl „æi það er einhver hundur í mér.“

Ungir jafnaðarmenn leita nú af fylgi Samfylkingarinnar sem týndist á þessu kjörtímabili. Þeir eru róttækir og senda heldur betur sitjandi þingmönnum flokksins skýr skilaboð um endurnýjun í flokknum. Engin endurnýjun varð á þingflokki Samfylkingarinnar í síðustu kosningum og nú vilja ungir að engin þeirra taki oddvitasæti á framboðslistum í komandi kosningum. Með þessu móti er endurnýjun sett í fyrsta sætir, eins og ungir orða það. Þetta er skemmtilegt og gaman að sjá að ungir stigi fram með þessum hætti og bendi þingmönnum léttilega á þá staðreynd að sumir hverjir þurfa að líta sér nær þegar kemur að fylgi flokksins, það er nefnilega ekki bara ESB sem er nauðlent út í Evrópu, sem dregur flokkinn niður, heldur hlýtur hluti skýringarinnar að liggja í þingflokknum. Það verður gaman að sjá tillögu ungra fellda á fundinum í byrjun júní.

Ég er ekki að skilja lætin yfir því að Eurovision hefur bannað fána ISIS og nokkurra þjóða í salnum á keppninni. Heyrði viðtal við reiða konu yfir því að Palestínufáninn er ekki leyfður. Hvað er verið að gera með fána frá þjóðum sem eru ekki í keppninni ? Ég skil það ekki, þarf að rífast yfir öllu, væri ekki spés ef hálfur salurinn væri með bandaríska fánann á lofti á meðan fulltrúar Noregs flytja sitt framlag? Enn og aftur bendi ég fólki á að það er hægt að fá gleðipillur og þá verður allt skemmtilegra.

En talandi um Eurovision, rassinn á Grétu vakti athygli í vikunni, sérstaklega hjá viðkæmum konum sem litu svo á að það væri verið að gera lítið úr Grétu og ímynd kvenna. Margar hverjar eru nú þátttakendur í „free the nipple“ og það stuðar mig meira en þessi krúttlegi rass á forsíðu Fréttablaðsins fyrr í vikunni. Gréta keppir á þriðjudaginn í fyrri undanúrslitunum og ég segi bara áfram Ísland.

Góða helgi