Nýjast á Local Suðurnes

Kjaftfor og djarfur FöstudagsÁrni vill ekki sjá Dabba á Bessastöðum

Það má með sanni segja að þessi föstudagspistill sé blindfoldaður og á það vel við eftir umræðuna um BDSM í vikunni.

Árni Árna

Árni Árna

Já, það hafa verið átök í Samtökunum 78 eftir að aðalfundur studdi beiðni BDSM um inngöngu í samtökin. Fjöldi félagsmanna hafa sagt sig úr S78 þar sem samtökin snúast ekki um kynlíf sem BDSM gerir svo sannarlega. Ég í raun skil ekki afhverju hópur fólks sem stundar BDSM – ástarleiki þurfi yfir höfuð að tilheyra einhverjum samtökum – og geti flokkað sig sem hinseigið fólk í þokkabót, en ágætt að taka það fram að í þessum hópi eru langflestir gagnkynhneigðir. Þetta er orðin spurning um túlkun á því að vera hinseigin, geta rauðhærðir tekið sig til og kallað sig hinseigin? Ég skil vel félaga í S78 að vilja verja samtökin sín sem hafa náð ótrúlegum árangri í mannréttindum, fræðslu og aukið viðsýni samfélagsins í gegnum árin. Ég er að vísu ekki félagi og ætla því ekki að taka afstöðu með eða á móti. En ég stend í þakkarskuld við S78 og vil ekki að samtökin skaðist við þessa ákvörðun.

Dagur borgarstjóri vill ekki Benedorm-væða borgina, bíddu býr hann ekki í borginni ? Hefur hann misst af þróuninni? Hótel flæða yfir borgarbúa og lundabúðirnar á hverju götuhorni minna úneitanlega á handklæða- og vindsængabúðir í Bene. Það væri gaman ef hann tæki upp á því að vera samkvæmur sjálfum sér og átti sig á því að íslendingar fara að vera á undanhaldi í miðborginni. Niðurrif bygginga til að reisa hótel er orðið nánast daglegt brauð og ekkert pláss fyrir þá sem þar vilja búa.

Það er frétt útaf fyrir sig að það fannst framsóknarmaður með siðferðiskennd – hann situr í stjórn RÚV og er með martraðir og áfallastreituröskun eftir að Gísli Marteinn hristi upp í þætti sínum með smá píkuveseni. Er ekki alveg örugglega 21. Öldin ? voðalega geta sumir verið viðkvæmir eitthvað. Reykjavíkurdætur eru djarfar og kjaftforar og ef RÚV bannar þeim aðgengi að fjölmiðli landsmanna væri ástæða til að ræða málið. Ég segi bara áfram stelpur, það eru víst einhverjir þarna úti sem fýla píkur – fyrir mér er þetta að vísu frárennsliskerfi kvenna og hefur engin áhrif á mig (er meira fyrir utaná liggjandi skolprör) og sef eins og ungabarn eftir að hafa horft á þáttinn. Annars var ég að spá í að breyta nafninu á föstudagspistlinum í vikan með Árna Árna.

Vigfús Bjarni sjúkrahúsprestur á Landsspítalanum tilkynnti framboð sitt til forseta í vikunni. Þarna er án efa á ferð vandaður einstaklingur sem gæti átt góða möguleika á árangri í baráttunni um Bessastaði. En ég fékk smá sjokk þegar ég sá hann, þarna stóð þessi viðkunnalegi maður í ullarjakkafötum í jarðlitunum og ég fékk bara svona smá Steingríms Joð hroll. Munið eftir honum í ullardraslinu í jarðlitum? Ég fékk á tilfinninguna að Vigfús hafi fengið dressið lánað hjá Steingrími – ég vona að einhver taki að sér að fara með þennan ágæta mann í verslunarferð og hjálpi honum að velja rétt fyrir kosningarbaráttuna. Þetta er ekki gott til árangurs kæri Vigfús, þú lítur út eins og þunglyndur menntaskólakennari í þessu.

Hún hlýtur að vera af minkaætt konan í Vietnam sem eignaðist tvíbura sem eru ekki samfeðra. Minkurinn safnar frjóguðum eggjum og að fengitíma loknum færast þau í legið og vaxa þar – minkurinn er ekki mikið gefin fyrir einn rekkjunaut – þessa konu þarf að rannsaka sem sérstakt fyrirbæri með eiginleika minksins að leiðarljósi.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins má líta í eigin barm þegar flokkurinn veltir fyrir sér fylgishruni meðal yngri kjósenda. Ási vinur minn styður ekki áfengisfrumvarpið, hann hefur tjáð sig með þeim hætti um flóttamenn að lítil lukka hlýst af. Núna vill hann loka skutlarahópnum. Að sjálfsögðu er skutlarahópurinn ólöglegur og eðlilegt að leigubílstjórar líði fyrir. En verðlagið á taxa er nú frekar í hærri kantinum og mörg ungmenni sem ekki hafa þess kost að nýta sér þjónustuna. En Ási þarf að átta sig á því að ungir kjósendur eru í flestum tilfellum frjálslyndir, styðja áfengi í verslnir eins og tíðkast í fjálslyndum samfélögum. Flestir sem yngri eru styðja fjölmenningasamfélag og hugnast ekki fordóma. Ási getur því alveg tekið á sig eina góða feita sneið af fylgistapi flokksins meðal yngri kjósenda.

Æi nei ég vil ekki Davíð Oddsson á Bessastaði. Davíð minn njóttu nú síðustu árana á vinnumarkaði í Hádegismóum og slakaðu svo á í bústaðnum og kastaðu kannski í eina bók eða svo. Allt hefur sinn tíma, þú líka.

Góða helgi