Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Níræður fyrrum páfi er stuðbolti af Guðs náð

Byrjaði ekki vel ferðalagið hjá áströlskum ferðamanni sem sofnaði í rútu á milli Keflavíkur og Reykjavíkur fyrr í vikunni. Viðkomandi tók þyrnirósarblund á þetta og vaknaði síðar, aleinn og yfirgefinn í myrkri. Þá var bílstjórinn búinn að losa sig við farþegana, ganga frá rútunni á athafnasvæði fyrirtæksins við Sundahöfn. Ferðamaðurinn var því læstur inn í kaldri rútunni á lokuðu vinnusvæði. Ekki var gefið upp í fréttum hvort fyrirtækið tengist með einhverjum hætti þjónustuakstri fatlaðra hjá Strætó, en nokkuð ljóst að bílstjórar eru að gleyma sér við að yfirfara bílana í lok vinnudags. Ég vona að þessi martröð ferðamannsins mildi áfallið þegar hann þarf að greiða fyrir vörur og þjónustu á ferðalagi um landið okkar fagra.

arni arna keflavikurn

Mikael Torfason hefur fjallað um fátækt á Íslandi upp á síðkastið. Sjálfsögðu þarf að ræða stöðuna í íslensku samfélagi og vinna að því að draga úr fátækt eins og hægt er. Fátækt hefur dregist saman á heimsvísu, það er bara ekkert fjör að fjalla um það í fjölmiðlum. Hungursneið hefur dregist saman um 20% síðan 1970. Við erum að gera eitthvað rétt, tölurnar tala sínu máli. Ég fagna því að Mikael veki umtal um málefnið enda má alltaf gera betur. EN hann er oft hvatvís hann Mikael og getur á sama tíma og hann er að gera vel, skaðað. Hann hjólaði í forsætisráðherrafrúnna á dögunum með ljótum hætti. Þóra er einn af þáttarstjórnendum í þættinum falleg íslensk heimili sem sýndir eru á Stöð 2. Þóra Margrét sem er hönnunarráðgjafi, hefur ekkert vit á menningu eða listum af því að hún er efnuð, að mati Mikaels. Hann gagnrýnir harðlega heimsókn á heimili manns sem tengist panama æðinu fræga. Það er nokkuð ljóst að staðhæfingar Mikaels um að efnameira fólk hafi ekki vit á menningu og listum er auðvitað fjarstæðukennt. Auk þess eru litlar líkur á því að heimilin sem eru heimsótt séu ákveðin að öllu leyti af þáttarstjórnendum. Mikael sem nú hefur gengið til liðs við Sósíalistaflokkinn hefur skotið sjálfan sig í fótinn og það er ekki í fyrsta skiptið og ekki það síðasta.

Benedikt fyrrum páfi er snillingur. Hann fagnaði níutíu ára afmæli sínum með einum svellköldum og freiðandi bjór. Með honum í dagdrykkjunni var eldri bróðir hans og níutíu og þriggja ára Georg vinur hans. Þetta kalla ég stuðpinna af Guðs náð. Benedikt er fyrsti páfinn í 600 ár sem segir af sér embætti, en venjan er að þeir geispi golunni í embætti. Hann nennti þessu ekki lengur, hætti þessu bulli fyrir fjórum árum og datt í það. Ég vona að mér beri sú gæfa til að skvetta aðeins í mig bjór þegar og ef ég næ níræðu.

Það er með ólíkindum hvað það kemur alltaf jafnt á óvart að lömb komi í heiminn þegar líða fer að vori. Magnús Hlynur fréttamaður þeysist um Suðurlandið úr einu fjósi í annað til að landsmenn missi nú ekki af þessu stórkostlega kraftaverki náttúrunnar. Þá eru fréttirnar sýndar á besta tíma í fréttum og miðað við spenninginn í Magnúsi mætti líkja honum við þátttakendur í Amazing Race. Ég bíð bara eftir að Magnús hlaupi upp geitungabúin líka og fylgist grannt með rabbabara vakna til lífsins. Það má með sanni segja að hann sé í bullandi samkeppni við Landann á RÚV sem kostar sjónvarpsfólk þvert og endilagt landið í leit að ljósastaurum og mávastelli.

Sá fyrir skemmstu frétt þess efnis að WOW air er stundvísasta flugfélagið. Er ekki viss um að flugfarþegarnir á Miami séu því sammála eftir hrakningar vikunnar. Að húka í nokkra daga seinkun er ekki góð skemmtun. Sá status á facebook þar sem einn var í flýti á leið til Boston í von um að Icelandair gæti troðið sér með til að missa ekki af fermingu síns eigin barns á sumardaginn fyrsta. WOW air skyldi bara ekki í pirringnum yfir þessu og taldi farþegana vera heppna að fá nokkra aukadaga í sólinni. Ég heyri reglulega hrylllingssögur frá farþegum félagsins sem er þekkt fyrir að týna farangri, skilja farþega eftir eða hreinlega lengja dvöl þeirra óvænt eins og raun ber vitni í Miami.