Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær undir lögbundið skuldaviðmið – “Þessi árangur næst ekki af sjálfu sér”

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 16. apríl síðastliðinn að vísa ársreikningnum til síðari umræðu þann 7. maí næstkomandi, en ársreikningurinn staðfestir að sveitarfélagið er á góðri leið með að ná þeim fjárhagslegu markmiðum sem stefnt hefur verið að undanfarin ár.

Tekjur bæjarsjóðs héldu áfram að vaxa og voru 15,6 milljarðar, samanborið við 14,4 milljarða á árinu 2017 og jukust því um tæp 11 prósent á milli ára. Sveitarfélagið er því samkvæmt nýrri aðferð um útreikning skuldaviðmiðs búið að ná undir 150% lögbundið skuldaviðmið.

Eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Beinnar Leiðar, Samfylkingar og Framsóknarflokks var lögð fram á fundinum:

„Ársreikningur Reykjanesbæjar staðfestir að sveitarfélagið er á góðri leið með að ná þeim fjárhagslegu markmiðum sem stefnt hefur verið að undanfarin ár. Niðurstaðan er mjög hagfelld og staðfestir að sú leið sem ákveðin var í Sókninni var hin rétta leið.

Tekjur bæjarsjóðs héldu áfram að vaxa og voru 15,6 milljarðar, samanborið við 14,4 milljarða á árinu 2017 og jukust því um tæp 11 prósent á milli ára. Rekstrartekjur samstæðu voru skv. ársreikningi 23,2 milljarðar.

Rekstrargjöld bæjarsjóðs voru 12,1 milljarður samanborið við 11,7 milljarða útgjöld á árinu 2017 og nemur hækkun gjalda tæpum 4% milli ára. Rekstrargjöld samstæðu voru skv. ársreikningi 16,6 milljarðar.

Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 3,5 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra er rekstrarniðurstaða jákvæð um 2,6 milljarða. Rekstrarniðurstaða skv. samstæðu var jákvæð um 2,3 milljarða króna.

Heildareignir sveitarfélagsins í samstæðu námu um 70 milljörðum króna og voru heildareignir bæjarsjóðs um 37,3 milljarðar króna í árslok 2018.

Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu námu um 48,5 milljörðum króna og í efnahagsreikningi bæjarsjóðs voru skuldir og skuldbindingar 29,1 milljarður króna í árslok 2018.

Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu eru 48,6 milljarðar og skuldaviðmið er komið niður fyrir 150% viðmiðið og var 137,29% í árslok 2018.

Sveitarfélagið er því samkvæmt nýrri aðferð um útreikning skuldaviðmiðs búið að ná undir 150% lögbundið skuldaviðmið.

Það má þó gera ráð fyrir að skuldaviðmið hækki tímabundið þegar uppsöfnuðu handbæru fé verður ráðstafað til byggingar Stapaskóla. Í árslok 2018 ríkir áfram óvissa um endanlegt virði langtímakröfu Reykjanesbæjar í Fagfjárfestingasjóðnum ORK sem heldur á hlutabréfum í HS Orku. Það má þó gera ráð fyrir að einhverjir fjármunir heimtist vegna sölu á þeim hlutbréfum sem verða þá nýttir til uppgreiðslu skulda.

Það er því ljóst að Reykjanesbær er á réttri leið. Þessi árangur næst ekki af sjálfu sér og eru starfsfólki Reykjanesbæjar færðar þakkir fyrir að sveitarfélagið er að komast á þann stað að vera eitt af best reknu og sjálfbærustu sveitarfélögum á Íslandi.“

Bæjarfulltrúar Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Díana Hilmarsdóttir.

Þá lagði Gunnar Þórarinsson fram eftirfarandi bókun Frjáls afls:

„Eftir kosningar í bæjarstjórn 2014 var myndaður meirihluti sem setti sér það meginmarkmið að ná niður skuldum bæjarsjóðs og hafnarinnar og annarra B-hluta rekstrareininga. Aðgerðirnar fólust m.a. í því að auka framlegð í rekstri bæjarins, semja við kröfuhafa um lægri vexti og gera rekstur B-hluta sjálfbæran. Með „Sókninni“ eins og aðgerðirnar voru kallaðar náðist sá árangur sem stefnt var að, að ná skuldaviðmiði undir þau lögskyldu mörk sem sett hafa verið af ríkisvaldinu, eða undir 150% í árslok 2022. Nú þegar í árslok 2018 er skv. ársreikningi gert ráð fyrir að skuldaviðmið A hluta sé 122,6% fyrir A-hluta og 137,29% fyrir A+B hluta í árslok 2018.

Í áætlun sem gerð var í desember s.l. er síðan gert ráð fyrir að skuldaviðmiðið lækki á árinu 2019 um 4,9 prósentustig fyrir A-hluta en 5,5 prósentustig fyrir A+B hluta. Gert er ráð fyrir lækkun á hverju ári allt til ársloka 2022 og verði skuldaviðmiðið því vel undir lögskyldum mörkum á árunum 2019-2022 ef áætlanir ganga eftir.

Það er því augljóst að bæjarstjórnin hefur náð verulegum árangri í rekstri bæjarins á undanförnum árum. Til að halda áfram sömu vegferð þarf að ná skuldum bæjarins enn frekar niður, þannig að vaxtarbyrðin verði hófleg og hægt sé að sinna þeim verkefnum sem blasa við.“

Gunnar Þórarinsson, Frjálst afl.