Nýjast á Local Suðurnes

Áætlaður kostnaður við ritun á Sögu Keflavíkur um 55 milljónir króna

Áætlaður kostnaður við ritun á lokahluta sögu Keflavíkur er áætlaður um 55 milljónir króna og er stefnt að því að verkinu verði lokið á næstu tveimur árum. Þetta kom fram á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku en þá mættu þeir Kristinn Jakobsson, formaður ritstjórnar og Eiríkur Páll Jörundsson, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar á fundinn og fóru yfir hugmyndir um ritun sögunnar og áætlun um kostnað.

Samkvæmt verk- og kostnaðaráætlun er stærstur hluti kostnaðar við verkið launakostnaður höfundar og ritstjóra en áætlað er að sá kostnaður hljóði upp á um 25 milljónir króna. Þá er áætlaður kostnaður við myndritstjórn og prentun um 10 milljónir króna.

Samhliða útgáfu verksins á prenti er stefnt að uppsetning vefsíðu, en samkvæmt kynningu á verkefninu eru miklir möguleikar fólgnir í slíkri uppsetningu þar sem hægt væri að þróa verkefnið áfram og halda því í takt við tímann.