Nýjast á Local Suðurnes

Nýtt göngu- og útivistarkort fyrir Reykjanesskaga

Reykjanes UNESCO Global Geopark gaf út á dögunum út nýtt göngu- og útivistarkort fyrir Reykjanesskaga. Á kortinu má sjá legu meira en 25 gönguleiða og upplýsingar um 55 áhugaverða staði.

Kortið er handteiknað og vatnslitað af mikilli nákvæmni uppúr hæðalínugrunni, loftmyndum og fjölda ljósmynda. Markmiðið var að gera eigulegt og sígilt kort sem er einfalt aflestrar. Segja má að kortagerðarfólkinu hjá Borgarmynd sem unnu að kortinu hafi tekist vel upp enda er kortið fallegt að sjá.

Kortið, sem hægt er að nálgast í Kvikunni í Grindavík, á upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn og í Gestastofu Reykjanes Geopark í Duushúsum, er gefið út í takmörkuðu upplagi nú í sumar með það að markmiði að fá viðbrögð frá notendum. Þá má geta þess að ferðaþjónustufyrirtæki geta fengið upplag af kortum og bæklingum þar í Gestastofu Reykjanes Geopark, sem er eins og áður segir staðsett í Duushúsum.