Nýjast á Local Suðurnes

Frumhönnun nýs sundlaugarsvæðis kynnt – Sjáðu myndirnar!

Hugmyndir eru um að gera verulegar breytingar á sundlaugarsvæðinu í Grindavík en frumhönnun á nýju sundlaugarsvæði var kynnt íbúum á opnum fundi í vikunni. Tillögurnar eru unnar af Batteríinu arkitektum og hefur verið unnið að þeim frá því í maí 2022.

Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar, en tilkynninguna má sjá í heild hér fyrir neðan:

Tillögurnar gera ráð fyrir nýrri byggingu meðfram núverandi knattspyrnuvelli þar sem finna má 17 metra innisundlaug, vaðlaug, heitan pott og gufuböð. Á útisvæði verður 25 metra sundlaug, heitir pottar og leiksvæði.

Tillögur að frumhönnun sundlaugarsvæðisins má nálgast hér . 

Á sama fundi var jafnframt kynnt tillaga að deiliskipulagi fyrir íþróttasvæðið í Grindavík. Deiliskipulagstillöguna má nálgast hér

Get ég komið mínum sjónarmiðum á framfæri?
Íbúum gefst kostur á að senda inn ábendingar vegna tillögunnar hér eða með því að senda tölvupóst á Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs á netfangið eggert@grindavik.is eigi síðar en 26. febrúar nk.

Hvað gerist næst?
Þær nefndir Grindavíkurbæjar sem málið snertir munu vinna úr þeim ábendingum og athugasemdum sem kunna að berast í kjölfar kynningarfundarins. Þegar þeirri vinnu er lokið munu arkitektar hefjast handa við að fullvinna teikningarnar. 

Hvað er frumhönnun?
Við frumhönnun er mannvirkið skilgreint út frá þeim gögnum sem liggja til grundvallar. Í þessu tilfelli þarfagreiningu og samtali við hagaðila. Afstöðumynd sýnir legu mannvirkisins í umhverfinu og grunnmyndir sýna stærð og skipulag.

Hvenær verður hægt að ráðast í framkvæmdir?
Samkvæmt fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar 2023 er gert ráð fyrir að haldið verði áfram með hönnun á sundlaugarsvæðinu í ár. Þriggja ára áætlun bæjarstjórnar gerir ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á því tímabili.

Hvað hefur verið gert til þessa?
Þann 16. maí 2022 var auglýst á vef Grindavíkurbæjar eftir hugmyndum frá íbúum þar sem til stendur að forhanna nýtt sundlaugarsvæði á næstunni. Íbúum í Grindavík gafst kostur á að koma hugmyndum sínum, ábendingum og athugasemdum á framfæri. Í auglýsingunni sagði m.a. að leitað væri að hugmyndum sem endurspegli hlutverk laugarinnar sem miðstöð sundkennslu, vellíðanar og leikja fyrir íbúa á öllum aldri.

Hægt var að senda inn ábendingar gegnum vefinn sem og fylla út blað með sömu spurningum og skila í svarkassa í afgreiðslu íþróttamannvirkja. Ábendingavefurinn var bæði á íslensku og pólsku. Alls bárust hátt í hundrað svör.

Svör íbúa voru lögð fyrir fund frístunda- og menningarnefndar og vann nefndin úr þeim tillögum sem sendar voru inn. Þarfagreining frístunda- og menningarnefndar var í kjölfarið lögð fyrir bæjarráð lýsti ánægju sinni með hugmyndirnar og samþykkir að þær verði notaðar til grundvallar hönnun svæðisins.

Batteríið arkitektar unnu tillögu sem byggir á þarfagreiningunni. Tillögurnar hafa á ólíkum stigum þeirra verið kynntar fyrir hagaðilum, m.a. starfsfólki íþróttamannvirkja, íþróttakennurum við Grunnskóla Grindavíkur, knattspyrnudeild UMFG og sunddeild UMFG, ungmennaráði og minna-Þrumuráði. Á öllum stigum hefur verið unnið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.