Nýjast á Local Suðurnes

Grindavík vann grannaslaginn – Keflavík tapaði í Borgarnesi

Grindvíkingar lögðu Njarðvíinga að velli í grannaslagnum í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld og Keflvíkingar töpuðu gegn liði Skallagríms í Borgarnesi.

Að þriðja leikhluta undanskildum voru Grindvíkingar betri aðilinn í leiknum gegn Njarðvíkingum, þeir höfðu góðar gætur á Stefan Bonneau í fyrrihálfleik, en kappinn skoraði aðeins fjögur stig á fyrstu 20 mínútum leiksins. Njarðvíkingar tóku við sér í þriðja leikhluta og komust yfir á tímabili, en Grindvíkingar tóku svo á því í fjórða leikhluta og lönduðu nokkuð öruggum sigri, 95-83.

Lewis Clinch Jr. var með 21 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar fyrir Grindavík. Logi Gunnarsson og Stefan Bonneau skoruðu 20 stig hvor fyrir Njarðvík.

Keflvíkingar voru með fjögurra stiga forystu fyrir lokaleikhlutann gegn Borgnesingum, 55-51, en það dugði ekki til því Skallagrímsmenn voru mun sterkari í leikhlutanum og lönduðu sigri, 80-71, í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld.

Amin Stevens var atkvæðamestur hjá Keflavík með 32 stig og 14 fráköst.