Nýjast á Local Suðurnes

Tekist á um mögulega bókasafnsflutninga

Tekist var á um mögulegan flutning á Bókasafni Reykjanesbæjar frá Tjarnargötu yfir í Hljómahöll á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en meirihlutiinn hefur samþykkt að skoða þann möguleika, gera kostnaðaráætlun og skoða mögulega hönnun á húsnæðinu, verði af breytingum.

Fulltrúar bæði meiri- og minnihluta lögðu fram bókanir um málið á fundinum, hvar þeir skýra sínar skoðanir á þessu hitamáli. Báðar bókaninar má sjá hér fyrir neðan:

Bókun meirihluta:

„Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 24. nóvember 2022 var samþykkt af kjörnum fulltrúum allra flokka að skoða það hvort færa eigi Bókasafn Reykjanesbæjar í núverandi húsnæði Rokksafns Íslands í Hljómahöll. Það væri liður í því að efla Hljómahöll enn frekar sem menningarhús Reykjanesbæjar og styrkja daglega starfsemi í Hljómahöll. Bæjarstjóra var falið að skoða málið með starfsfólki Reykjanesbæjar; gera kostnaðaráætlun, skoða mögulega hönnun vegna breytinga á húsnæðinu að innan og skoða heildrænt hvort það sé góð hugmynd að færa bókasafnið í núverandi rými Rokksafnsins. Ef af ákvörðuninni yrði, myndi sambærileg vinna einnig fara fram um safnmuni Rokksafnsins, en margar hugmyndir eru uppi um hvort hægt sé að færa allt safnið eða hluta þess í aðrar byggingar, eða jafnvel halda hluta safnsins enn í núverandi húsnæði, enda vilji til þess að virða og miðla áfram tónlistarsögu Reykjanesbæjar.

Rekstur Rokksafnsins hefur verið krefjandi í mörg ár en er á sama tíma ekki lögbundið verkefni. Bókasöfn eru skilgreind sem lögbundin verkefni sveitarfélaga. Miklar fjárfestingar eru framundan á næstu árum í sveitarfélaginu og því ljóst að takmarkað fjármagn er til verkefna sem ekki eru lögbundin. Einnig er ólíklegt að hægt verði að fjárfesta í nýju húsnæði fyrir bókasafnið á komandi árum, enda dýr framkvæmd. Það er eindreginn vilji bæjaryfirvalda að nýta allt húsnæði Reykjanesbæjar á sem hagkvæmastan hátt og að húsnæði bæjarins þjóni þörfum íbúa sem best.

Bókasafn Reykjanesbæjar hefur verið í Ráðhúsi Reykjanesbæjar síðan 2013. Undanfarin ár, með fjölgun íbúa og nýjum hugmyndum um starfsemi bókasafna, hefur þörfin fyrir stærra og hentugra húsnæði aukist. Með mögulegum flutningi fengi bókasafnið nýrra og stærra húsnæði en áður og hefði loks möguleika á að láta framtíðarsýn Reykjanesbæjar í málefnum bókasafnsins frá 2019 verða að veruleika.

Í framtíðarsýn bókasafnsins, sem er stefnumótandi skjal samþykkt af bæjaryfirvöldum, kemur m.a. fram að bókasöfn á Norðurlöndunum eru í auknum mæli að breytast í samfélagsmiðstöðvar og nokkurs konar almannarými þar sem boðið er upp á fjölbreytta þjónustu aðra en útlán bóka. Hér er því ekki verið að hugsa um að færa einungis bækur og bókahillur yfir í Hljómahöllina, heldur að bókasafnið sem samfélagsmiðstöð verði hluti af menningarhúsi þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram.

Bókasafnið hefur undanfarin ár boðið upp á fjölbreytta viðburði öllum bæjarbúum að kostnaðarlausu, eins og upplestrarstund fyrir börn og fullorðna, foreldramorgna, listasmiðjur, fjölbreytta viðburði fyrir konur af erlendum uppruna, margs konar markaði sem styðja við deilihagkerfið og fleira. Í nýrra og stærra rými yrði betra pláss fyrir viðburði sem og lestrarrými, leiksvæði fyrir börn, kaffisölu og fleira. Hljómahöll yrði áfram vettvangur þar sem stærri tónleikar, veislur og viðburðir myndu fara fram m.a. í Bergi og Stapa.

Ef að flutningi bókasafnsins verður mun Reykjanesbær standa fyrir samráðsferli í takt við viðmið um íbúasamráð Sambands íslenskra sveitarfélaga, um uppbyggingu Hljómahallar sem enn öflugra menningarhúss þar sem leitast verður eftir að ná fram fjölbreytt sjónarmið bæjarbúa á öllum aldri.“

Bókun minnihluta:

“Sjálfstæðisflokkurinn lagði í haust meðal annars fram þá hugmynd að hagræðingu að skoða fýsileika þess að fá einkaaðila að rekstrinum í Hljómahöll og þannig minnka til muna það fjárframlag sem húsnæðið og starfsemin þar krefst frá sveitarfélaginu. Það olli okkur því vonbrigðum að sjá tillögu meirihlutans um að færa skyldi bókasafn Reykjanesbæjar af Tjarnargötu 12 og í Hljómahöll opinberaða. Áður hafa komið fram hugmyndir um færslu bókasafns, t.d. í Duus hús en ljóst að hugmyndir eru lítils virði ef við vitum ekki hverjar þarfirnar eru. Rekstur bókasafna í dag er gjörólíkur því sem hann var fyrir nokkrum árum og ljóst að breytingar munu halda áfram að ryðja sér til rúms. Greining á húsnæðisþörf bókasafna og stefnumótun um framtíðar starfsemi og þróun þarf því að byggja á mun fleiri þáttum en hillumetrum af bókum sem hreyfast æ sjaldnar og eiga í harðri samkeppni við rafbækur.

Við erum að byrja á öfugum enda með því að ætla að kostnaðarmeta hvað það kostar að koma bókasafni fyrir í Hljómahöll áður en við skoðum raunverulegar þarfir bókasafnsins óháð staðsetningu. Hljómahöll hefur í dag tekjur af útleigu sala og er Rokksafnið liður í aðdráttarafli salarleigunnar. Með færslu bókasafnsins erum við ekki að minnka kostnaðinn við Hljómahöll enda hann þegar til staðar við rekstur hússins og fermetrum sem hægt er að nýta til tekjuöflunar á móti. Tryggja þarf að gerð verið greining á því hvaða áhrif það hefði á þær tekjur sem við þó höfum af húsinu, ef Rokksafnið yrði flutt eða því lokað. Hversu vel fer salarleiga fyrir mannfagnaði og viðburði saman við starfsemi bókasafns? Er markmiðið að vera með „flottasta bókasafn landsins“? Hvenær er húsnæði einfaldlega of dýrt fyrir starfsemi sveitarfélags sem ekki skilar tekjum að neinu marki? Þessum spurningum og ótal fleiri er algjörlega ósvarað og að okkar mati óábyrgt að kasta því fram að færa skuli bókasafnið og vinna kostnaðaráætlun bundna við einn kost sem býður upp á að mat á kostnaði verði óskin ein, svo að kosturinn teljist góður.

Það er ljóst að kostnaður við húsnæðið í Hljómahöll er mikill og því ekkert unnið með að færa hann á milli lykla, hann minnkar ekki við það. Í raun mætti ætla að þessi breyting leiði til mun meiri kostnaðar þar sem leigutekjur tapast. Það er alls ekki hugmynd meirihlutans sem slík sem veldur okkur áhyggjum heldur sem fyrr, þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í aðdraganda hennar. Meirihlutinn vildi upphaflega bóka á fundi bæjarráðs, að tekin væri ákvörðun um flutninginn. Því mótmælti Sjálfstæðisflokkurinn enda óásættanlegt að ætla að ákveða þetta stóra framkvæmd án allrar greiningarvinnu.“