Nýjast á Local Suðurnes

Meirihluti þeirra sem fær fjárhagsaðstoð búið í Reykjanesbæ í stuttan tíma

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Mikill meirihluti þeirra sem þiggur fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ, eða 238 af 375, hefur búið í sveitarfélaginu í innan við eitt ár.. þetta kemur fram í svari við fyrirspurn bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Helgu Jóhönnu Oddsdóttur, á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Ekki liggur fyrir greining á ástæðu þess að þeir sem eru á fjárhagsaðstoð komast ekki inn á vinnumarkaðinn.

Hversu stór hluti hennar er vegna íbúa sem hafa búið skemur en ár í sveitarfélaginu?

Svar: 238 íbúar af þeim 365 sem fengu greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu í febrúar 2023 hafa búið skemur en 1 ár í sveitarfélaginu. 57 hafa búið 1- 3 ár í sveitarfélaginu og 70 hafa búið lengur en 4 ár.

Hversu stór hluti fellur til vegna umsækjanda um alþjóðlega vernd?
Svar: Ekkert af greiddri fjárhagsaðstoð fellur til vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá greitt skv. sérstökum samningi við ríkið og ber ríkið þann kostnað. Sveitarfélagið leggur út fyrir þeim kostnaði og fær hann að fullu endurgreiddan.

Hverjar eru helstu ástæður þess að þessi stóri hópur þurfi fjárhagsaðstoð, nú þegar atvinnuleysi hefur sjaldan verið minna á svæðinu og fyrirtæki keppast um að ráða til sín starfsfólk.


Svar: Langfjölmennasti hluti þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru utan vinnumarkaðar og eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta eða eru með skert réttindi hjá Vinnumálastofnun. Ástæða þess getur verið að einstaklingar hafi ekki áunnið sér að fullu rétt til atvinnuleysisbóta eða hafi fullnýtt réttindi sín hjá Vinnumálastofnun á undanförnum árum í því háa atvinnuleysi sem ríkt hefur á Suðurnesjum.
75% þeirra sem voru á fjárhagsaðstoð í febrúar sl. áttu ekki rétt til atvinnuleysisbóta eða áttu mjög skertan rétt.
Ekki liggur fyrir greining á ástæðu þess að þeir sem eru á fjárhagsaðstoð komast ekki inn á vinnumarkaðinn en gera má ráð fyrir því að ástæðurnar séu fjölþættar m.a. að ekki finnist vinna við hæfi t.d. vegna skertrar starfsgetu, menntun er ekki í samræmi við þarfir vinnumarkaðarins, tungumálahindranir eða heilsufarsástæður svo eitthvað sé nefnt. Einnig er vinnumarkaðurinn að flytja inn erlent vinnuafl til starfa og má ætla að það hafi líka áhrif á starfsmöguleika fólks í atvinnuleit.