Nýjast á Local Suðurnes

Uppfylla fjármálareglu Sveitarstjórnarlaga tveimur árum á undan áætlun

Sveitarfélagið Garður uppfyllir nú fjármálareglu Sveitarstjórnarlaga varðandi rekstrarafkomu, tveimur árum á undan áætlun, en skuldahlutfall sveitarfélagsins er 15,56%, en samkvæmt fjármálareglum Sveitarstjórnarlaga má skuldahlutfall ekki vera umfram 150%. Þetta kom fram þegar Ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2015 var til umfjöllunar í bæjarstjórn Garðs þann 6. apríl sl.

Niðurstöður og helstu lykiltölur í ársreikningnum bera með sér góða rekstrarafkomu og mjög sterka efnahagslega stöðu sveitarfélagsins, heildartekjur þess voru 1.158 milljónir, þar af 1.125 milljónir í A hluta hjá sveitarsjóði.  Rekstrarafkoma A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 123,8 milljónir, sem er framlegð upp á 10,7%.  Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð 36,5 milljónir.

Þá var veltufé frá rekstri  153,7 milljónir og handbært fé jókst um 46,4 milljónir, sem styrkir mjög fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins, segir í tilkynningu.

Niðurstöður ársreikningsins eru mjög ánægjulegar fyrir bæjarstjórn, starfsfólk og íbúa sveitarfélagsins.  Þessar góðu niðurstöður bera vitni um gott samstarf og samstöðu í bæjarstjórn, sem hefur unnið að ákveðnum markmiðum um rekstur og fjárhag sveitarfélagsins og hefur þeim markmiðum verið náð.  Starfsfólk og forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins hafa skilað góðu verki og árangri í rekstri stofnana og sveitarfélagsins í heild sinni, þeirra framlag er mikilvæg forsenda fyrir þessum góða árangri. Segir í jafnframt í tilkynningunni.