Óska eftir afstöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum til gjaldtöku á ferðamannastöðum

Reykjanes Geopark hefur óskað eftir afstöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum til mögulegrar gjaldtöku á ferðamannastöðum á svæðinu. Þá samþykkti Bæjarráð Reykjanesbæjar á fundi sínum á dögunum að skoðaðir verði möguleikar á gjaldtöku vegna bílastæða á ferðamannastöðum.
„Við erum að kanna afstöðu sveitarfélaga til þess hvaða leiðir eigi að fara til að fjármagna uppbyggingu. Ef þau meta það þannig að gjaldtaka sé ein þeirra leiða komum við til með að skoða það áfram,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, verkefnisstjóri Reykjanes Geopark í samtali við mbl.is.
Eggert segir að Reykjanes Geopark leggi gjaldtökuna ekki til, einungis sé verið að óska eftir afstöðu sveitarfélaga. Á næsta stjórnarfundi Reykjanes Geopark í desember verður málið tekið fyrir en stjórnin er skipuð fulltrúum sveitarfélaganna.