Nýjast á Local Suðurnes

Ekkert áætlunarflug um Keflavíkurflugvöll í kvöld og nótt

Vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra verður þjónusta á Keflavíkurflugvelli takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá 21:00 í kvöld til 07:00 í fyrramálið. Ástæðan er að tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vaktinni í nótt eru veikir og vegna yfirvinnubanns fást ekki flugumferðarstjórar til afleysinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

„Þetta mun ef að líkum lætur hafa áhrif á 24 flugferðir. Annars vegar er um að ræða miðnæturflug til og frá Evrópu og svo morgunflug frá Norður-Ameríku til Keflavíkurflugvallar og frá Keflavíkurflugvelli til Evrópu. Að auki mun þetta hafa umtalsverð áhrif til röskunar á áætlun flugfélaganna í framhaldinu.“

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Samtök Atvinnulífsins (SA) fyrir hönd Isavia standa nú í kjaraviðræðum og hefur þeim verið vísað til ríkissáttasemjara.

Viðræður hafa staðið yfir frá því í nóvember en síðustu átta fundir hafa verið haldnir undir stjórn Ríkissáttasemjara, sá síðasti 26. apríl síðastliðinn. Ríkissáttasemjari hefur boðað næsta fund 9. maí.

Í tilkynningunni kemur ennfremur fram að FÍF ákvað að setja á yfirvinnubann, en það hefur staðið yfir frá 6. apríl. „Hingað til hefur það ekki haft mikil áhrif á áætlunarflug um íslenska flugvelli en þó nokkur áhrif á flug um íslenska flugstjórnarsvæðið.“ Segir einnig í tilkynningunni.