Suðurnesjaþingmenn á meðal þeirra sem fá hæstu kostnaðargreiðslurnar

Þingmenn sem búa á Suðurnesjum hafa fengið greiddar frá 2,7 milljónum króna til 3,7 milljóna króna í mánaðarlegar kostnaðargreiðslur og annan kostnað frá Alþingi það sem af er ári. Fastar mánaðarlegar kostnaðargreiðslur eru húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslur, fastur starfskostnaður og fastur ferðakostnaður. Annar kostnaður telst meðal annars kostnaður vegna ferða innan og utan lands, símakostnaður og starfskostnaður samkvæmt reikingum.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks, sem búa á Suðurnesjum þeir Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson hafa fengið mest greitt, Vilhjálmur rétt tæplega 3,7 milljónir króna og Ásmundur rúmlega 3,6 milljónir. Þingmaður Miðflokksins, Birgir Þórarinsson hefur fengið 3,2 milljónir króna og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks um 3,1 milljón. Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur fengið minnst af þeim sem búa á Suðurnesjum eða um 2,7 milljónir króna.
Nokkrir þingmenn hafa fengið hærri greiðslur en þingmenn af Suðurnesjum, en yfirleitt er þá um að ræða þingmenn sem búa á landsbyggðinni og er stærstur hluti kostnaðarins tengdur ferðalögum og húsnæðis- og dvalarkostnaði.
Upplýsingar um launagreiðslur og kostnað þingmanna eru birtar á vef Alþingis, en þar má finna skiptingu þess kostnaðar sem þingmenn fá greiddan, meðal annars aksturkostnað sem verið hefur töluvert í umræðunni undanfarin misseri. Þegar þær tölur eru skoðaðar má sjá að Ásmundur Friðriksson hefur nýtt sér bílaleigubíla í mun meiri mæli en áður og að Birgir Þórarinsson nýtir nær eingöngu bílaleigubíla í sínum erindagjörðum á vegum Alþingis.
Hér má skoða allt um laun og kostnað þingmanna.