Nýjast á Local Suðurnes

Grín á Facebook varð að tveggja mánaða nafnabreytingu – “Sit uppi með nafnið fram í september”

Fjöldi fólks fékk skilaboð á Facebook í júlí þess efnis að það mætti undir engum kringumstæðum samþykkja vinabeiðni frá Jayden K. Smith nokkrum. Sagan sagði að þar væri á ferðinni lævís hakkari, sem myndi stela öllum þeim persónuupplýsingum sem hann mögulega kæmist yfir. Þeir sem fengu þessi skilaboð voru jafnframt beðnir um að vara alla sína vini við þessum þrjóti með því að senda þeim skilaboð þar að lútandi og úr varð allsherjar kaos að hætti Facebook.

Suðurnesjastúlkan María Ólöf Sigurðardóttir ákvað að taka grínið skrefinu lengra og breytti nafni sínu á Facebook í Jayden K. Smith þegar vírusinn stóð sem hæst, ætlaði að vera fyndin í nokkrar mínútur og hrekkja nokkra vini. Það reyndist hinsvegar dýrkeypt þar sem Facebook hefur breytt vinnureglum í kringum nafnabreytingar og þarf María Ólöf að bera nafn hakkarans alræmda í 60 daga eða til 10. september.

“Þetta var algjört hvatvísiskast eða gert í slíku. Ég var búin að fá fullt af aðvörunum sem tengdust þessum hakkara, svo fylltist facebook af einhverjum grínstatusum þess efnis að hakkarinn væri á vinalistanum hjá fólki eða að það hefði addað þessum gaur sem og gaf Biggi lögga það út að þetta væri ekki hakkari, já o.fl. Þannig að ég ákvað að bæta um betur og breyta nafninu mínu til að grínast undir statusum hjá öðrum og skjóta fólki smá skelk í bringu þannig að það héldi að þessi Jayden hefði troðið sér inn á vinalistann þeirra.” Sagði María Ólöf í spjalli við Suðurnes.net

“Rétt áður en ég hafði lokið við að breyta nafninu sá ég að ég yrði föst með það í 60 daga og hugsaði huhh það er svolítið langur tími, en mér fannst þetta svo fyndið sjálfri að ég ákvað að gera þetta bara. Þetta var síðan fyndið í svona korter en ég sit uppi með nafnið til 10. september, sem er einmitt brúðkaupsafmæli systur minnar og mágs svo að ég get ekki gleymt deginum. Annars er gaman að segja frá því að þremur dögum síðar fór ég á lyf við ADHD og allt varð skýrara – en það breytir því ekki að nafnið helst áfram til 10. september” Sagði María Ólöf.

Þá sagði María Ólöf að lokum að hún væri vinsælli, ja eða óvinsælli á Facebook, en áður, vinabeiðnirnar hrúgast inn og þó flestir taki þessu sem léttu gríni þá hafa fylgt þessu nokkrar hótanir frá erlendum aðilum.

“Maður bestu vinkonu minnar eyddi mér t.d. út af Facebook þar sem þau eru með sameiginlegan reikning. En jú, vinabeiðnunum hefur fjölgað töluvert og þessu hafa fylgt nokkrar hótanir.” Sagði María Ólöf.