ÍAV bauð best í 5,3 milljarða verkefni á Keflavíkurflugvelli
Íslenskir aðalverktar buðu best í útboði bandaríska varnarmálaráðuneytisins á hönnun og framkvæmdum vegna flughlaða og tengdra verkefna á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins, en ekki er tilgreint hvaða önnur tilboð bárust. Verkið var auglýst í júlí á síðasta ári.
Í tilkynningunni kemur fram að Bandarísk yfirvöld fjármagni alfarið framkvæmdirnar.
Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á tæpar 39 milljónir bandaríkjadala eða 5,3 milljarða króna. Það er undir kostnaðaráætlun bandaríska varnarmálaráðuneytisins en heildarfjárheimild bandaríska þingsins hljóðaði upp á 57 milljónir dala.