Nýjast á Local Suðurnes

Jóhanna Ruth áfram í Ísland Got Talent – “Ein besta rödd sem ég hef heyrt á Íslandi”

Jóhanna Ruth - Mynd: Skjáskot Stöð 2

Hin fjórtán ára gamla Jóhanna Ruth komst áfram í úrslitaþátt Ísland Got Talent, eftir undanúrslitaþáttinn sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi, Það var magnaður flutningur Jóhönnu á Bonnie Tyler laginu Holding Out for a Hero, sem tryggði sætið í úrslitunum. Jóhanna er 14 ára söngkona sem flutti frá Filippseyjum til Íslands fyrir um fimm árum síðan ásamt fjölskyldu sinni og býr í Reykjanesbæ.

“Þú ert með rödd sem er stærri heldur en lífið. Þú ert ein besta rödd sem ég hef heyrt á Íslandi,” sagði Ágústa Eva Erlendsdóttir sem á sæti í dómnefndinni.

Aðrir meðlimir dómnefndarinnar voru álíka hrifnir af söngkonunni ungu og sagðist Jakob Frímann Magnússon þekkja rödd hennar eins og skot auk þess sem hann sagði söngkonuna eiga framtíðina fyrir sér.

Jóhanna Ruth er ekki óvön söngvakeppnum en hún sigraði söngvakeppni Samfés árið 2015 fyrir Fjörheima með ótrúlega flottum flutningi á lagi Alicia Keys, Girl on fire.

Atriði Jóhönnu úr Ísland Got Talent frá því í gær og flutning hennar á sigurlagi Samfés má sjá hér fyrir neðan.