Nýjast á Local Suðurnes

Sendu frá sér yfirlýsingu eftir að misbrestur varð við sorphirðu

Misbrestur varð á sorphirðu við heimili í Grindavík á dögunum, þegar byrjað var að vinna eftir nýju kerfi, þar sem sorp var hirt eftir gamla kerfinu. Um var að ræða tvo bíla, samkvæmt yfirlýsingu frá Grindavíkurbæ. Þar segir einnig að þessu hafi þó fljótt verið kippt í liðinn og var heimilissorp hirt samkvæmt réttu verklagi fyrir utan fyrstu tvo bílana.

Yfirlýsing Grindavíkurbæjar vegna sorphirðu

Núna í vikunni var í fyrsta skipti hirt sorp við heimili í Grindavík samkvæmt nýju flokkunarkerfi þ.e. tvískipt tunna fyrir lífrænan og blandaðan úrgang, tunna fyrir plast og tunna fyrir pappa. 

Sorpsamlagið Kalka er rekið af sveitarfélögunum Suðurnesjum. Tilgangur félagsins er að eiga og reka saman móttöku-,flokkunar- og sorpbrennslustöðina Kölku í Helguvík. Enn fremur að annast þjónustu á sviði sorphirðu og móttöku úrgangs í sveitarfélögunum og önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu, á sviði úrgangs og endurvinnslumála. Samkvæmt samningi við Kölku þá sér Terra um sorphirðu við heimili á Suðurnesjum ásamt því að hirða flokkað sorp á grenndarstöðum. 

Eftir samskipti starfsmanna Grindavíkurbæjar við fulltrúa Kölku og Terra í dag er ljóst að það hafi verið misbrestur á sorphirðu við heimili þegar fyrstu tveir bílarnir mættu á svæðið í vikunni, þar sem sorp var hirt eftir gamla kerfinu. Þessu var þó fljótt og örugglega kippt í liðinn og var heimilissorp hirt samkvæmt réttu verklagi fyrir utan fyrstu tvo bílana.

Til upplýsinga fyrir íbúa Grindavíkurbæjar þá á að losa tvískiptum tunnum í bíl sem er tvískiptur, þ.e. blandaður úrgangur og lífrænn fer í sitthvort hólfið. 

Terra sér einnig um losun á grenndargámum aftan við slökkviliðsstöðina við Hafnargötu 13. Samkvæmt upplýsingum frá Kölku og Terra er ákveðið kerfi á því þegar pappi og plast er sótt. Þá fer bíllinn fyrst einn hring um grenndarstöðvar á Suðurnesjum þar sem pappinn er hirtur og pressaður fremst í bílinn, síðan er hringurinn tekinn aftur og plastið sett í sama bíl þannig að plastið verður pressað aftast í bílinn. Pappanum og plastinu er síðan sturtað á golf á móttökustað þar sem auðvelt er að skilja það í tvennt og því komið í endurvinnslu

Fulltrúi Grindavíkurbæjar mun fara á fund Kölku og Terra á mánudaginn kemur til að fara yfir þá verkferla sem unnið er eftir til að koma í veg fyrir að atvik sem þessi komi upp aftur. Væntingar eru um það að eftir þann fund muni Kalka og Terra senda út ítarlegar upplýsingar um það hvernig sorphirðu verði staðið. 

Það er ánægjulegt að segja frá því að Kalka var mjög ánægt með gæðin á því sorpi sem flokkað var í Grindavík og ljóst að íbúar sveitarfélagsins eru að vanda sig við flokkun. 

Með von um skilning og áframhald á góðri flokkun á sorpi frá heimilum í Grindavík.