Fara vel yfir sorphirðumál yfir hátíðir og leggja sérstaka áherslu á upplýsingagjöf
Ekki tókst að klára að tæma sorpílát rétt fyrir síðastliðin jól, líkt og Suðurnes.net greindi frá á þeim tíma, vegna forfalla og annara óviðráðanlegra aðstæðna. Kalka mun vinna með Terra, sem sér um sorphirðu í Reykjanesbæ að fyrirbyggjandi aðgerðum vegna þessa.
Málið var töluvert rætt á samfélagsmiðlum og í samfélaginu almennt og hafði bæjarstjóri Reykjanesbæjar meðal annars samband við framkvæmdastjóra Kölku á aðfangadag vegna þess. Kalka hefur í kjölfarið óskað eftir því við Terra að farið verði vel yfir málið og kannað sérstaklega hvernig bæta megi upplýsingagjöf til fólks þegar svona staða kemur upp. Starfsfólk Kölku hafði ekki vitneskju um málið fyrr en kvartanir tóku að berast.
Stjórn Kölku telur mikilvægt að vera á undan samfélaginu með upplýsingar, skýringar og afsökunarbeiðnir eftir því sem við á. Framkvæmdastjóra Kölku hefur því verið falið að vinna áfram með Terra að því að skipuleggja aðgerðir sem fyrirbyggja svona uppákomur og gera nauðsynlegar lagfæringar á upplýsingagjöf til almennings.