Tyson-Thomas öll að koma til – “Verður vonandi leikfær í næsta leik”
Leikmaður Njarðvíkinga og einn besti leikmaður Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik, Carmen Tyson-Thomas, er öll að koma til eftir erfið meiðsli á hné og vonast þjálfari liðsins Agnar Mar Gunnarsson eftir því að hún verði klár í slaginn þegar Njarðvíkingar leika gegn Stjörnunni á útivelli þann 30. nóvember næstkomandi.
“Eins og staðan er núna er hún betri með hverjum degi og verður vonandi vel leikfær á miðvikudaginn,” Sagði Agnar í stuttu spjalli við Suðurnes.net.
Njarðvíkingar hafa komið á óvart það sem af er vetrar, sitja í fjórða sæti deildarinnar með 8 stig eftir níu umferðir, en liðinu var spáð slæmu gengi fyrir mót. Tyson-Thomas hefur átt stóran þátt í góðu gengi liðsins, en hún er stigahæsti leikmaður deildarinnar, með tæplega 39 stig í leik. Hún er auk þess frákastahæst, en hún hefur tekið rúmlega 16 slík að meðaltali í leik.