Atkvæðagreiðsla um yfirvinnubann – Myndi hafa mikil áhrif á starfsemi KEF

Félag flugmálastarfsmanna ríkisins hefur ákveðið að halda atkvæðagreiðslu um yfirvinnubann, en félagið hefur verið með lausa samninga síðan í lok október á síðasta ári.
Atkvæðagreiðslan verður haldin með rafrænu fyrirkomulagi og stendur kosning yfir frá klukkan 12:00 þann 21.2.2023 til klukkan 23:59 þann 23.2.2023, segir í tilkynningu á vef félagsins.
Yfirvinnubann nær til allra félagsmanna FFR sem starfa hjá Isavia ohf., Isavia innanlandsflugvellir ehf. og Isavia ANS ehf. og tekur gildi þann 3.3.2023, verði það samþykkt.
Yfirvinnubann myndi hafa mikil áhrif á starfsemi Keflavíkurflugvallar, en á meðal þeirra sem eru félagsmenn í FFR eru flugvallarstarfsmenn, starfsfólk flugþjónustu s.s. slökkvilið og björgunarfólk ásamt starfsfólki sem sinnir snjóruðningi og halkuvörnum. Þá eru flugöryggisverðir, iðnaðarmenn og skrifstofufólk félagar í FFR sem og starfsfólk sem sinnir farþegaflutningum innan vallarsvæðisins.