Nýjast á Local Suðurnes

Töluverður viðbúnaður þegar sjómaður veiktist

Laust eftir miðnætti fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu um veikindi um borð í fiskibát sem var á strandveiðum vestur af Sandgerði.

Einn var um borð í bátnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskipið Stefnir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og varðskipið Þór voru kölluð út og beðin um að halda á staðinn. Þá var fiskibátur í grenndinni sömuleiðis beðinn um að halda á vettvang.

Skipverjinn var hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og komið undir læknishendur í Reykjavík. Sigmaður þyrlunnar varð eftir í bátnum og sigldi honum til Sandgerðis í fylgd Stefnis. Á sjöunda tímanum í morgun var fiskibáturinn kominn til Sandgerðis.