Líklegast að kvika komi upp á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells

Uppfærðir líkanreikningar Veðurstofu sýna að magn kviku undir Svartsengi er nú jafnt því sem var fyrir eldgosið 20. nóvember. Þetta bendir til vaxandi líkum á eldgosi á næstu dögum eða vikum, segir í tilkynningu.
Ef til eldgoss kemur verður það áttunda gosið á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023. Vegna síendurtekinnar eldvirkni mælast nú færri og minni skjálftar í aðdraganda gosa, sem þýðir að fyrirvari fyrir næsta eldgos gæti verið mjög stuttur – allt niður í 30 mínútur.
Talið er líklegast að kvikan komi fyrst upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Það hefur verið tilfellið í sex gosum af þeim sjö sem hafa orðið frá því að eldvirknin hófst í árslok 2023. Undantekningin er eldgosið sem hófst í janúar 2024 þegar kvikan kom fyrst upp rétt suður af Hagafelli. Ekkert í gögnum Veðurstofunnar útilokar þó að eldgos komi upp sunnan við eða suður af Hagafelli.