Skutlari stöðvaður tvívegis
Erlendur ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stóð að því að flytja farþega gegn gjaldi um helgina reyndist ekki hafa ökuréttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni. Þá var hann ekki með skráð dvalarleyfi hér á landi.
Fram kemur í tilkynningu lögreglu að maðurinn hafi verið að aka frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar með farþega í bifreiðinni þegar lögregla stöðvaði hann. Þegar hann gat ekki framvísað tilskildum leyfispappírum var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var af honum skýrsla.
Þetta er í annað sinn á árinu sem maðurinn er staðinn að slíkum verknaði.