Nýjast á Local Suðurnes

Föstudags Árni Árna er ánægður með bæjarstjóra Reykjanesbæjar

Það verður erfitt hjá tæknimönnum 365 að klippa til Ísland got talent þar sem Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri og Stuðmaður tekur sæti í dómnefndinni. Ég sat kennslustundir með Jakobi í Háskólanum og það verður seint sagt um Jakob að hann sé stuttorður og hnitmiðaður. Allt þarf sinn inngang og slaufur íslenskrar tungu þegar hann er annarsvegar. Ef hann tók til máls skrapp maður á salernið og kastaði af sér, greip með sér nýjan kaffibolla og settist og þá var Jakob kominn að kjarna málsins – missti ekki af neinu. Ég á samt eftir að sakna Bubba úr þáttunum.

local

Föstudags Árni

Hanna Birna Kristjánsdóttir þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fær prik frá mér fyrir að hlusta á flokkssystkini sín og ákveða að stíga til hliðar úr varaformannsembættinu. Hanna Birna er öflug en þarf greinilega að vinna sér inn traust almennings aftur og ef ekki þá gæti hún þurft að sætta sig við að snúa sér einhverju öðru, það er líf eftir stjórnmálin.

Fyrir hálfum mánuði tók ég fyrir í pistli mínum falskt íbúalýðræði í samhengi við íbúakosningar í mínum gamla heimabæ, Reykjanesbæ. Ónefndur bæjarfulltrúi sá sig knúnann að tjá sig um málið og vísaði því alfarið á bug að þrátt fyrir að framkvæmdir væru í fullum gangi og starfsleyfi hafi verið veitt og að kosningarnar væru ekki bindandi, væri ekki fyrirséð hver niðurstaða bæjarstjórnar í málinu væri. Þá tók Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar kosningarnar sem dæmi um frábært íbúalýðræði til að bakka upp Samfylkinguna í Reykjanesbæ. Flokkurinn er þar í meirihluta ásamt fólki úr ýmsum áttum sem tilheyra ekki beint flokkum eða hugsjónum en eru alveg til í völd. Nú hefur Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, stigið fram og bara sagt það blákalt að sama hvernig kosningin fer þá verður að stóriðju í Helguvík. Ég verð bara að taka ofan fyrir Kjartani, ef það væru fleiri bæjarstjórar og stjórnmálamenn sem væru svona hreinskilnir við almenning þá vissum við að hverju við göngum. Kjartan Már, ég er bara ánægður með þig, ég vil fólk í stjórnunarstöður með bein í nefinu.

 

Aldrei má maður ekki neitt. Haldið þið að lögreglan sé ekki farin að skipta sér að því hvernig fólk klæðir sig. Já heitfeng húsmóðir í miðborginni var gripin af lögreglu fyrir það eitt að vera í G-streng. Þá þurfti að gera athugasemir við það að húsmóðirin hafði aðeins fengið sér hvítt og rautt, ég meina er þetta ekki bara uppskriftin að góðum sunnudegi ?

Samviskufrelsi presta hefur verið mikið í umræðunni í þessari viku. Þetta snertir mig persónulega, það eru ennþá prestar í þjóðkirkjunni sem hafa bara ekki samvisku til að gifta samkynhneigða. Þessir steingervingar innan kirkjunnar eru henni til skammar og biskupinn býr til ákvæði um samviskufrelsi til að halda friðinn. Við megum ekki gleyma að þessir prestar eru ríkisstarfsmenn og eru ráðnir til að þjóna þegnum þessa lands. Ef biskupinn treystir sér ekki til að láta ríkisstarfsmenn sinna störfum sínum og vilja frelsi til að velja og hafna þegnum þessa lands þá er bara eitt í stöðunni, aðskilnaður ríkis og kirkju. Ég hef velt þessu fyrir mér með þjóðkirkjuna, hún er alveg eins og önnur þjónustustofnun ríkisins, það þarf að borga fyrir allt aukalega nema þessar sunnudagsmessur sem fáir nenna nú að sækja. En ef ég tek bara einfalt dæmi, spáið í því ef starfsmenn á sýslumanni fengu nú samviskufrelsi til að afgreiða ekki rauðhærða eða segjum bara fólk í hjólastólum, hvernig tæki þjóðin á þeirri umræðu? En ég hef sem betur fer sagt mig úr þjóðkirkjunni, enda erum við hommarnir frekar hornreka þegar kemur að trúarbrögðum og því ágætt að standa utan þeirra enda eru trúarbrögð rót átaka og hörmunga í heiminum.