Nýjast á Local Suðurnes

Rauðvínsröfl og hræsni á föstudegi

Stormurinn Diddú gekk yfir landið í vikunni með látum. Maður getur ekki annað en fagnað að engin slasaðist alvarlega, enda hlustuðu landsmenn loksins á viðvaranir í þetta skiptið. Ég veit samt ekki alveg hvernig ég tæki því ef svona hvellur væri nefndur mér til heiðurs, en Diddú tók því með jafnaðargeði eins og allt annað og brosti hringinn. Ég heyrði nú niðinn í Diddú hérna upp á fimmtu hæð en ákvað að skríða undir sæng snemma og svaf þetta bara af mér. Bíllinn var á sínum stað í bílakjallaranum þegar ég vaknaði og lífið hélt áfram. Þegar ég var að keyra í vinnuna fór ég að hugsa hvort við hefðum ekki gert of mikið úr þessu hérna í litla kanaríkinu, en ég tel það til eftirbreytni að hafa varan á og það fauk ekkert í mig æsingur í fjölmiðlum með aukafréttatíma og það hafi verið sjónvarpsstöð á staðnum þegar snjór féll af þaki í Garðabæ. Það sem vakti samt mestu athyglina var það að allar matvöruverslanir í Reykjavík voru troðfullar. Það var eins og það væri þorláksmessa, ekkert stæði að fá meðan reykvíkingar hömstruðu matvörurnar líkt og Diddú væri komin til að vera svo mánuðum skipti. Þetta var hálfur sólarhringur max.

Árni Árna

Árni Árna

Össur Skarphéðinsson þingmaður er í vandræðum með rauðvínsröflið sitt eftir að facebooksíðu hans var fyrirvaralaust lokað í vikunni. Þetta leiðinda-atvik hefur áhrif á störf hans í þinginu þar sem Össur er hálf andvaka yfir þessu máli og hefur ekkert náð að taka lúr á fundum á vegum þingsins. Þetta er auðvitað mikið álag að þurfa að vaka í vinnunni og vona ég að síðan hans detti nú inn fljótlega svo Össur kasti ekki fram frumvarpi um ný vökulög fyrir þingmenn.

Hræsni vikunnar var samstaða minnihlutans á þingi varðandi aukafjáveitingar til öryrkja og eldri borgara annarsvegar og til landspítala hinsvegar. Þó svo að ég styðji aukanar fjárveitingar í þessa málaflokka þá flissaði ég soldið að sjá Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar berjast fyrir velferð öryrkja og eldri borgara. Ríkisstjórnin hefur sem betur fer skilað til baka því sem vinstri stjórnin reif af þessum þjóðfélagshópum í ríkisstjórnartíð sinni. Að ráðast á öryrkja og eldriborgara minnir einna helst á það þegar skera á niður í stórfyrirtækjum og það er byrjað á að reka skúringarkonuna. Ég hef samt trú á því að núverandi ríkisstjórn geti gert mun betur en að skila þjófnaði Samfylkingar og VG – það á engin að lifa við fátækt á Íslandi.

Ásta Kristín hjúkrunarfræðingur fékk heldur betur frábæra jólagjöf í vikunni þegar hún var sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi. Eins og kom fram í fréttum voru starfsstéttir allra í heilbrigðisgeiranum fyrir rétti í þessu sorglega máli. Það þarf að fara yfir ferlið á svona tilvikum, en ég lág á dögunum samanlagt í fimm daga á Borgarspítalanum og hreinlega skil það vel að það verði einstaka mistök – en samt ekki að segja að Ásta hafi gert mistök enda sýknuð. Álagið á fólki og ástandið í heilbrigðiskerfinu er til skammar. Ég fékk gott viðmót, starfsfólkið að gera sitt besta en aðstæður, mannekla og álag með þeim hætti að sú þjónusta sem ég fékk var virkilega óviðunandi á köflum. Eftir sólarhring var mér hent út ranglega sjúkdómsgreindur og sendur heim með mígreni eftir að hafa fengið blóðtappa við heila. Ég gæti skrifað stóra og fræðandi grein um ástandið eftir að heimilislæknirinn minn sá um að sinna starfi þeirra sem sinntu mér ekki á bráðadeildinni, og ég var loksins lagður inn aftur og var á vergangi um ganga bráðadeildarinnar þar sem ekki var pláss fyrir mig á sjúkrahúsinu. Ég hitti nýjan og nýjan lækni, allir með sínar skoðanir, allir báðu mig um að segja aftur og aftur hvað kom fyrir, allir og nokkrir læknanemar settu mig í sömu testin, mér leið eins og útigangsmanni á flækingi og eins og páfagaukur þess á milli segjandi mína sögu mörgum sinnum á dag. Þegar ég var loksins útskrifaður héldu rannsóknir áfram með nýjum og nýjum starfsmönnum og fór svo á fund til að heyra niðurstöðurnar og settist niður með lækni nr. ég veit ekki sem hafði bara ekkert lesið sig til um mig og ég sat með honum meðan hann las skýslurnar og þá vantaði í skýsluna upplýsingar frá lækninum sem útskrifaði mig. Þetta er meira eins og sirkus en sjúkrahús.

Heitasta mál vikunnar var án efa ákvörðun um að vísa flóttafólki úr landi sem vakti vægast sagt hörð viðbrögð. Í hópnum voru langveikir drengir og að sjálfsögðu snertir það tilfinningar allra, en það þarf að fara að lögum. Albanía er skráð sem friðsælt ríki og þegar þessi mál eru skoðuð virðist koma þessa fjölskyldna vera sú að fá fría læknisaðstoð hérlendis. Ekkert kveður á í lögum eða sáttmálum varðandi samþykki flóttafólks reist á heilsufari þeirra. Læti almennings í málinu þróaðist í undirskriftarlista þar sem krafist er afsagnar Ólafar Nordal, innanríkisráðherra sem er með betri ráðherrum sem þjóðin hefur alið af sér. Vanþekking almennings um hvernig þessum málum er háttað, hvernig þau eru unnin er augljós, úrskurðarnefnd fer með valdið í þessu máli, ekki ráðherra. Alþingi var samhuga um að færa valdið frá innanríkisráðherra til úrskurðarnefndar. Viljum við að ráðherrar geti vaðið yfir ríkisstofnanir gegn laga- og reglusetningu sem samþykktar hafa verið á Alþingi ? Einhver yrðu lætin þá. En það sem ég sé út úr þessu er sérstök mynd, eða hegðun þjóðarinnar. Víða mátti sjá yfirlýsingar um að fólk skammist sín fyrir þjóðerni sitt og framvegis. Spurningin er einföld, viljum við að lögum sé fylgt í landinu eða viljum við á málefnin í landinu séu háð duttlungum stjórnmálamanna og að stóryrt þjóðin geti með pólitískum þvingunum náð sínu fram þegar henni hentar? Hvernig væri ástandið hérna þá ? Og hefðum við viljað gefa fyrst þjóða fordæmi um að sjúkir einstaklingar séu velkomnir hingað í fría heilbrigðisþjónustu á sama tíma og heilbrigðisþjónustan er óviðunandi fyrir okkur sem eru hér fyrir? Það er ekki nóg að láta stór orð falla, við þurfum að vera reiðubúin að axla ábyrgð á orðum okkar – áfram Ólöf Nordal.

Nú svo má ekki gleyma að Justin Bieber er væntanlegur aftur á klakann og með tónleika í þetta skiptið. Það er spurning hvort hann klári þá að vísu þar sem það má ekki snerta hann því þá gengur litli dramaprinsinn af sviði. Það verður gaman að sjá hvar hann kastar af sér vatni í þetta skiptið, verður það aftur Olís eins og síðast og þá er líka áhugavert að sjá hve margar stúlkurnar ná 15 mínútna frægð fyrir að sænga hjá toppstirninu, já eða strákar.