Nýjast á Local Suðurnes

Leoncie: “Fer héðan glöð og vona að Íslendingar gleðjist líka”

Skemmtikrafturinn og indverska prinsessan Leoncie hefur ákveðið að yfirgefa Ísland á ný, hún reiknar með að vera flutt af landi brott fyrir næstu jól. Söngkonan góðkunna hefur haldið heimili, ásamt eiginmanni sínum, í Reykjanesbæ undanfarin misseri.

Leoncie hefur að sögn unað hag sínum ágætlega í Keflavík, fyrir utan óánægju með snjómokstur á tímabili í vetur, en telur tímabært að halda aftur út í heim, enda sé eftirspurnin eftir hæfileikum hennar þar mun meiri en hér.

Hún sagði í viðtali í Síðdegisþættinum á útvarpstöðinni Hringbraut FM 89.1 að þetta snerist ekki um að hún væri búin að fá nóg af Íslandi heldur hafi hún aldrei ætlað sér að setjast hér að aftur. Síðan er „nóg að gera hjá mér erlendis í tónlistinni og leiklistinni,“ sagði Leoncie í þættinum.

Leoncie segist hafa mátt þola árásir á Íslandi árum saman, ekkert breytist á Íslandi en að þeir sem hafi gert árásir á hana munu fá makleg málagjöld.

Þá sagði söngkonan síðasta ár hafa verið hundleiðinlegt, ekki síst vegna þess hversu Ríkissjónvarpið er niðurdrepandi. Hún segist þó mjög hamingjusöm enda mikið að gerast hjá henni í útlöndum. Hún fari héðan glöð og voni að Íslendingar gleðjist líka.