Kötturinn Felix vinnur á lestarstöð og hefur yfir 40.000 fylgjendur á Facebook
Sem kettlingur rambaði kötturinn Felix inn á lestarstöðina í Huddersfield á Englandi, sem í sjálfu sér er ekki frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að hann hefur síðan þá verið við “störf” sem meindýraeyðir við lestarstöðina. Nú fimm árum síðar hefur Felix fengið stöðuhækkun og er orðin yfirköttur meindýraeyðingardeildar lestarstöðvarinnar og eins og sjá má á myndinni hefur kötturinn fengið flottan búning sem fylgir starfinu.
Vera kattarins á lestarstöðinni hefur vakið athygli en breskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að byggður hafi verið sérstakur inngangur fyrir Felix þegar lestarstöðin var endurnýjuð fyrir skömmu. Þá hefur kötturinn Felix, sem fær greitt fyrir störf sín í formi kattarmatar, sérstaka Facebook-síðu hvar yfir 40.000 manns fylgjast með honum við daglegt amstur.