HS Orka fékk hæstu einkunn orkufyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni

Í dag voru niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2015 kynntar og er þetta sautjánda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti.
HS Orka fékk hæstu einkunn raforkufyrirtækja með 59,5 stig, en ekki var marktækur munur til staðar á HS Orku og Orku Náttúrunnar sem var í öðru sæti með 58,8 stig. Veitt er viðurkenning þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næst hæstu einkunnina.
Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 19 fyrirtæki í 6 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 329 til 1178 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnvísi, sem sér um mælinguna.