Nýjast á Local Suðurnes

Birta myndbönd sem sýna hversu auðvelt það er að tæla fólk á netinu

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum mun á næstunni birta myndbönd sem sýna hversu auðvelt það er að tæla fólk á netinu, en með aukinn netnotkun barna og unglinga hafa stafrænar þvingunaraðgerðir, blekkingar, hótanir og kúganir gagnvart börnum og ungmennum aukist mjög á síðustu árum.

Í flestum tilfellum er um að ræða þvinganir sem fela í sér að börn og ungmenni eru hvött til að senda af sér kynferðislegar myndir en svo krafin um greiðslu gegn loforði um að þær verði ekki birtar opinberlega og í flestum tilvikum eru þessar þvinganir ekki tilkynntar til lögreglu.

Sem andsvar við þessari alvarlegu þróun hefur herferðinni #Say NO!, eða #Segðu Nei!, verið hrint af stað. Europol styður herferðina sem réttindasamtök og einkaaðilar í Evrópu standa á bakvið. Herferðin miðar að því að gefa þeim ráð sem hafa lent í slíkum glæpum, eða eru líklegir til að verða fórnarlömb kúgunar með nauðung á netinu, sem og að hvetja til að málin séu tilkynnt.

Meðal efnis herferðarinnar er stuttmynd, fáanleg á öllum tungumálum Evrópusambandslanda, sem hjálpar fólki að bera kennsl á ferlið, gefur góð ráð um netnotkun og leggur áherslu á mikilvægi þess að tilkynna um glæpinn til þar til gerðra yfirvalda.