Nýjast á Local Suðurnes

Tæplega 650.000 lögðu leið sína um Keflavíkurflugvöll

Alls lögðu 643.800 farþegar leið sína um Keflavíkurflugvöll í maí, sem er 32,4% fjölgun frá sama tíma í fyrra. Flogið var til 69 áfangastaða og voru þeir vinsælustu  Kaupmannahöfn, London, New York, París og Boston.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Isavia, en þar segir að brottfarir Íslendinga hafi verið tæplega 62 þúsund eða 98% af því sem þær mældust árið 2018 þegar mest var.

Samkvæmt talningu frá Ferðamálastofu voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um 158 þúsund í nýliðnum mánuði. Um er að ræða annan stærsta maímánuð frá því mælingar hófust en brottfarir farþega voru um 96% af því sem þær mældust í maí, metárið 2018.

Flestar brottfarir í mars voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 25,7%, en í öðru sæti voru brottfarir Pólverja, eða 9,3% af heild. Þar á eftir fylgdu Frakkar, Þjóðverjar og Hollendingar.