Nýjast á Local Suðurnes

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær falleinkunn á meðan yfirmenn maka krókinn

Þrír yfirmenn hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru á meðal þeirra lækna sem nýta frítíma sinn í vinnu á öðrum heilbrigðisstofnunum, en vaktakerfi HSS býður upp á mikinn frítökurétt sem gerir læknum kleift að nýta frítíma sinn í vinnu á öðrum stofnunum.

Fjölnir Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri lækninga við HSS, Snorri Björnsson, yfirlæknir heilsugæslu og Andri Heide, formaður læknaráðs skipta með sér vöktum á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, þar sem þeir starfa á heilsugæslu stofnunarinnar á Blönduósi viku í senn. Eins og áður segir skapast mikill frítökuréttur vegna vaktakerfis HSS, en á stofnuninni taka læknar sólarhringsvaktir, sem veldur því að töluverð hreyfing er á læknum sem margir hverjir noti frítíma sinn í vinnu á öðrum stöðum.

Þá hefur Suðurnes.net heimildir fyrir því að Snorri komi að rekstri tveggja fyrirtækja, SB Karlsson slf., og THSGK læknaþjónusta Sf., en tilgangur þeirra samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattjóra eru sérfræðilækningar. Helsta tekjulind fyrirtækjana tveggja mun þó vera sala á þjónustu lækna til heilbrigðisstofnanna, en samkvæmt heimildum Suðurnes.net hefur Snorri meðal annars lækna frá HSS á sínum snærum.

Heilsugæsla HSS fékk falleinkunn í skýrslu hlutaúttektar á HSS sem unnin var af Landlæknisembættinu á dögunum. Þar kom meðal annars fram að langur biðtími sé eftir tíma hjá sérstökum lækni og hætta á að ekki sé hægt að tryggja samfellda og heildstæða þjónustu. Að mati stjórnenda heilsugæslu HSS vantar að minnsta kosti fimm stöðugildi lækna til að fullmanna starfsemi stofnunarinnar.

Í skýrslunni kemur einnig fram að að hluta til sé reynt að manna heilsugæsluna með unglæknum og á sumrin einnig með læknanemum, til dæmis þeim sem stunda læknanám í Ungverjalandi. Við vinnslu skýrslunnar var stjórnendum HSS tíðrætt um hversu erfiðar margar vaktir læknana eru og ekki allir sem þola þetta mikla álag og dæmi eru um að menn hafi hætt vegna álags og/eða kulnunar í starfi.