Nýjast á Local Suðurnes

Beinn kostnaður af umferðarslysum á Reykjanesbraut yfir fimm milljarðar króna

Kostnaður samfélagsins sem hlaust af umferðarslysum á Reykjanesbraut á árunum 2012-2016 nam tæplega 5,5 milljörðum króna. Um er að ræða beinan kostnað, meðal annars vegna starfa lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningamanna auk kostnaðar vegna eignatjóns og sjúkrahúsvistar. Þá er tekið tillit til kostnaðar vegna vinnutaps einstaklinga í útreikningunum, en ekki verðmætasköpunar sem einstaklingur hefði stuðlað að hefði hann haldið fullri heilsu út líftímann.

Útreikningarnir eru byggðir á gögnum úr slysaskrá Samgöngustofu, en greint var frá niðurstöðunum á Samgönguþingi í dag.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður starfshóps um fjármögnun framkvæmda við helstu stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Fréttablaðið í dag að tölurnar séu frekar varlega áætlaðar.

Séu allar helstu stofnæðarnar teknar með í reikninginn, þ.e. leiðirnar til Suðurnesja, Borgarness og Selfoss er kostnaðurinn áætlaður um 16 milljarðar króna.