Þéttskipuð dagskrá á haustfundi European Geoparks Network
Dagana 2. – 6. september hélt fríður flokkur fulltrúa Reykjanes Geopark til borgarinnar Oulu í Finnlandi en þar var haldinn árlegur haustfundur European Geoparks Network. Rokua Geopark sá um skipulag fundarins í ár og fórst það vel úr hendi. Í Oulu er öflugt háskólasamfélag svo að öll aðstaða til fundahalds og fyrirlestra var til fyrirmyndar.
Fulltrúar Reykjanes Geopark Í Finnlandi voru eftirfarandi: Eggert Sólberg Jónsson, verkefnisstjóri Reykjanes Geopark, Róbert Ragnarsson, formaður stjórnar Reykjanes Geopark, Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Arnbjörn Ólafsson hjá Reykjanes Geocamp, Þuríður H. Aradóttir Braun, verkefnastjóri Markaðsstofu Reykjaness á og Siggeir Ævarsson, upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar.
Dagskráin frá fimmtudegi til laugardags var þéttskipuð. Fimmtudagurinn og laugardagurinn voru að mestu helgaðir málstofum og fyrirlestrum frá jarðvöngum (geopörkum) víðsvegar að úr heiminum.
Á föstudeginum var svo farið í vettvangsverð um Rokua Geopark og ýmsir áhugaverðir staðiir heimsóttir, t.d. skóglendi og virkjun, auk þess aem grunnskólar á svæðinu voru heimsóttir.
Á laugardagskvöldinu var svo tilkynnt við hátíðlega athöfn að Reykjanes Geopark væri 66. alþjóðlega vottaði Geoparkinn í Evrópu. Um er að ræða samtök svæða sem eru jarðfræðilega merkileg. Samtökin njóta stuðnings UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna. Laugardaginn 20. september var svo tilkynnt formlega að Reykjanes Geopark hefði einnig fengið aðild að GGN, eða Global Geoparks Network.
Ferðasöguna í heild sinni er að finna á heimasíðu Grindavíkurbæjar.