Bikarhelgi á Suðurnesjum – Grannar berjast í Keflavík og Grindavík

Það verður nóg um að vera í fótboltanum á Suðurnesjum um helgina, en öll Suðurnesjaliðin leika bikarleiki á Reykjanesskaganum – þó ekki öll á heimavelli.
Inkasso-deildarlið Keflavíkur tekiur á móti 2. deildarliði Víðis úr Garði á Nettó-vellinum á föstudagskvöld. Liðin léku síðast í bikarkeppninni árið 1986 og höfðu Keflvíkingar betur í þeirri rimmu.
Njarðvíkingar fá ÍR-inga í heimsókn á Njarðtaksvöllinn á laugardag. Liðin hafa margoft leitt saman hesta sína í deildarkeppni og hefur ávallt verið um stórskemmtilega leiki að ræða. Njarðvíkingar hafa farið mikinn á undirbúningstímabilinu og unnu meðal annars Stál-úlf með 6 mörkum gegn 1 í forkeppni Borgunarbikarsins.
Sandgerðingarnir í Reyni fá Hauka í heimsókn á laugardag, en Reynismenn, sem leika í 3ju deildinni fóru létt í gegnum forkeppnina með 7-1 sigri á Kórdrengjunum.
Þá verður annar nágrannaslagur á gamla aðalvelli Grindavíkur þegar GG tekur á móti Þrótti Vogum, á laugardag. GG slógu út lið Snæfell með sannfærandi 7-1 sigri. GG leikur í 4. deildinni, en Þróttur í þeirri þriðju.
Það eru miklar tengingar á milli GG og Þróttar. Margir leikmenn hafa spilað með báðum félögum og má reikna með nokkrum fyrrum leikmönnum Þróttar í búningi GG.
Liðin sem sigra um helgina komast áfram í 32ja liða úrslit Borgunarbikarsins.