Nýjast á Local Suðurnes

Kanna hvort auka þurfi hreyfingu barna í grunnskólum

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar hefur falið lýðheilsufulltrúa að vinna drög að fýsileikakönnun um aukna hreyfingu barna í grunnskólum Reykjanesbæjar s.s. fjölgun íþróttatíma eða markvissri hreyfingu í byrjun skóladags.

Á síðasta fundi ráðsins kom fram að rannsóknir sýni að aukin hreyfing barna í grunnskólum hefur meðal annars áhrif á líðan þeirra og námsárangur til góðs. Um áratugaskeið hefur fjöldi tíma í íþróttum og sundi barna verið sá sami þrátt fyrir vísbendingar um aukna kyrrsetu barna. Niðurstöður úr rannsóknum sýna að aukin kyrrseta byrjar yfirleitt við 7 ára aldur en við 15 ára aldur nær kyrrseta yfir 3/4 af þeim tíma sem börn eru vakandi.

Ráðlagt er að öll börn stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 60 mínútur daglega. Heildar tímanum má skipta í styttri tímabil, t.d. 10-15 mínútur í senn samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis. Fýsileikakönnunin skal unnin í samráði við íþrótta- og tómstundafulltrúa og fræðslusvið.

Eftirfarandi þættir skulu kannaðir: 1. Vilji barna til aukinnar hreyfingar í skólum og hugmyndir þeirra þar um. 2. Mögulegar útfærslur á aukinni hreyfingu barna og kostnaður við slíkar breytingar í grunnskólum Reykjanesbæjar. 3. Samantekt á útfærslum og rannsóknum sem gerðar hafa verið á Íslandi og nágrannalöndum er varðar verkefni er snúa að aukinni hreyfingu barna í grunnskólum.